Er hægt að koma reglu á tíðahringinn?

Spurning:

Sæl.

Ég er 31 árs og á eitt barn. Nú langar mig til þess að koma með annað. Í samfleytt í níu ár hef ég verið á pillunni. Áður en ég byrjaði á henni voru blæðingarnar fekar óreglulegar (6-7 vikur). Þann 1. júlí s.l. hætti ég á henni og 30 dögum síðar komu fyrstu blæðingarnar. Núna 9 vikum síðar hafa þær hreinlega ekki látið á sér kræla, en ég er oft með túrverki sem fjara síðan alltaf út (er ekki ólétt). Er þetta eitthvað til þess að hafa áhyggjur af? Er hægt að koma þeim af stað í formi lyfjagjafar?

Með kærri þökk,

Svar:

Takk fyrir fyrirspurnina.
Ég ráðlegg þér endilega að hafa ekki áhyggjur strax af því að blæðingarnar séu ekki byrjaðar, því það eru ekki nema rúmir þrír mánuðir síðan þú hættir að taka pilluna. Það getur tekið allt upp í 6 – 12 mánuði þar til blæðingar verða reglulegar eftir að kona sem hefur tekið pilluna í langan tíma hættir töku hennar. Það eru til lyf sem koma blæðingum af stað og þau eru ekkert ,,óholl” en ég tel samt ekki rétt að íhuga þann möguleika alveg strax. Það er ýmislegt sem getur haft áhrif á hvort kona hefur egglos. Þyngdartap getur valdið því að blæðingar stoppa, mikil líkamsþjálfun, ónóg næring og álag (stress). Ef þetta eru þættir sem gætu átt við í þínu tilfelli skaltu huga að þeim fyrst. Hvað varðar bólurnar er ýmislegt sem er hægt að gera til að minnka þær og fer það eftir því hvað þær eru slæmar hvaða meðferð er notuð. Þar sem þú ert að reyna að verða ófrísk eru meðferðarmöguleikar þó aðeins takmarkaðir. Til að byrja með myndi ég ráðleggja þér að þvo húðina með lausn sem inniheldur benzoyl peroxide og er hægt að fá án lyfseðils í apóteki. Ef það dugar ekki eru til lausnir sem eru bornar á húðina einu sinni eða tvisvar á dag og innihalda sýklalyf (erythromycin/clindamycin), þessar lausnir eru hinsvegar lyfseðilsskyldar. Ég vona að þetta svari spurningu þinni og hjálpi þér eitthvað í þessum vandræðum.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir