Er hægt að stækka brjóst án aðgerðar?

Spurning:

Hæ hæ!

Fyrirspurn mín snýst um brjóst, sem ég, líkt og fleiri nútímakonur, velti mér uppúr 🙂

Brjóstin á mér hafa ekki stækkað síðan ég var 14 ára og eru enn pínulítil, nánast engin. Þetta er ótrúlega pirrandi, þar sem ég er orðin 17 ára og vil nú fara að fá einhver brjóst.

Hvað er hægt að gera við þessu? Er hægt að örva vöxt brjóstanna á einhvern hátt? Get ég borðað eitthvað sérstakt eða gert eitthvað ákveðið eða…?

Vona að þið getið hjálpað mér,

Bestu kveðjur.

Svar:

Sæl og blessuð!

Það eru engin lyf til sem láta brjóstin stækka.

Sumar konur sem taka getnaðarvarnarpillu finna fyrir brjóstaspennu og finnst brjóstin verða stærri. Þetta er þó einstaklingsbundið og ég myndi ekki ráðleggja þér að taka getnaðarvarnarpilluna bara í þessum tilgangi.

Stór hluti brjósta er úr fituvef. Ef þú er mjög grönn gæti það skýrt brjóstastærðina að hluta. Vöðvar liggja undir brjóstum og með því að þjálfa þá mætti hugsanlega gera brjóstin meira áberandi. Hugsaðu líka út í hvort þín litlu brjóst samsvari sér ekki best við þína líkamsbyggingu. Stór brjóst eins og siliconbrjóst eru kannski í tísku núna, en ekki víst að það verði alltaf. Sú var tíðin að fallegast þótti að vera brjóstalítil og alveg eins líklegt að sá tími komi aftur.

Kveðja,
Bryndís Benediktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, sérsvið svefnrannsóknir