Er í lagi að gleyma pillunni?

Spurning:

Sæll Arnar.

Ég er í smá upplýsingarvandræðum, málið er að ég er á pillunni og var á blæðingum síðast í byrjun mars, byrjaði að taka inn pilluspjaldið þann 12. og svo gleymdi ég 2 pillum og er byrjuð á blæðingum aftur. Þannig að ég náði bara að taka inn 1/2 spjaldið. Ég er örugg á meðan að ég er á blæðingum er það ekki? Og á ég ekki svo bara að byrja á nýju spjaldi 5 dögum eftir byrjun þessara blæðinga sem að ég er á núna? Eða get ég orðið ólétt á þessum tíma? Nú er ég ekki búin að taka pilluna síðan á föstudaginn!!!

Hvernig verður með egglos? Ef ég byrja aftur strax á nýju spjaldi, verður það eitthvað óöruggara? Ég veit að sennilega er ég búin að hafa egglos fyrir þennan mánuðinn en hvað verður það um þann næsta??

Og hvernig er það ef að ég gleymi t.d að taka inn eina pillu (sem að kemur oft fyrir) er það í lagi?

Með kærri þökk fyrir góða og skilvirka heimasíðu

Svar:

Sæl.

Þetta er orðið nokkuð flókið. Til að einfalda þetta er bara eitt gott ráð. Hættu að gleyma pillunni.

Til að leysa núverandi vanda hefði verið nauðsynlegt að vita nafnið á pillunni. En nú hefur þú ekki tekið pilluna í 7 daga samkvæmt þínum upplýsingum. Nú skaltu byrja á nýju spjaldi, nota smokk eða forðast samfarir í 14 daga og gera þá þungunarpróf og sé það neikvætt eftir 14 daga töku er pillan orðin örugg, nema þú byrjir vitleysuna á ný og byrjir að gleyma.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson, kvensjúkdómalæknir