Spurning:
Sæll Ásgeir.
Fyrir nokkrum árum fór ég í speglanir þar sem í ljós kom að ég er með þindarslit og sepa. Í ca. 4 ár er ég búin að taka Lomex sökum uppþembu og brjóstsviða. Svo tek ég líka Spasmerín við lofti í maga sem heimilislæknirinn álítur að séu þarmakrampar. Ég hef reynt að hætta að taka Lomex en þá fæ ég strax brjóstsviða.
Mig langar því að spyrja þig hvort þú teljir í lagi að taka Lomex í svona langan tíma eða hvort æskilegra er fyrir mig að kaupa önnur brjóstsviðalyf?
Með fyrirfram þökkum.
Svar:
Sæl.
Brjóstsviði er helsta einkenni vélindabakflæðis. Vélindabakflæði er t.d. þegar magasýran nær að flæða upp í vélindað. Þetta má meðhöndla á ýmsa vegu og geta margskonar lífstílsbreytingar hjálpað t.d. forðast fitu, súkkulaði og stórar máltíðir. Feitu fólki er hættara við einkennum vélindabakflæðis.
Mörg lyf má nota til að halda niðri einkennum og er Lomex eitt þeirra. Engin sérstök hætta fylgir notkun þessara lyfja. Hins vegar er skynsamlegast að nota „vægasta" lyfið sem hjálpar hverju sinni. Ef viðvarandi einkenni eru, er rétt að ræða reglulega við sinn lækni og fá frekari ráðleggingar um eftirlit og meðferð.
Skoðaðu upplýsingar um vélindabakflæði á Doktor.is. Kveðja,
Ásgeir Theodórs, sérfræðingur í meltingarfærum.