Er óhætt að hætta snöggt á lyfi?

Spurning:
Góðan dag.
Mig langar að vita um Zoloft. Þannig er að dóttir mín (á 16. ári) er búin að vera á Zoloft í rúm 2 ár og hún hætti núna um daginn og hefur ekki verið á þeim í 1 og 1/2 viku. Mér finnst vera breyting á henni en ég er samt ekki viss.
Er óhætt að hætta svona snöggt á þessu?

Svar:
Það á víð um öll lyf úr flokki svokallaðra serótónínendurupptökuhemla (SSRI-lyf) að fram geta komið nokkurs konar fráhvarfseinkenni þegar töku lyfjanna er hætt.
Því er almennt mælt með því að þegar töku þessara lyfja er hætt að það sé gert í áföngum, þ.e.a.s. þar til töku er alveg hætt. Ef viðkomandi hefur verið á litlum skömmtum af lyfinu er ekki víst að ástæða sé til að minnka skammtinn smám saman áður en tökunni er hætt. Einkenni sem skýrt hefur verið frá þegar notkun sertralíns (Zoloft) hefur verið hætt eru meðal annars geðæsing, kvíði, sundl, höfuðverkur, ógleði og óeðlilegt húðskyn. Þó svo að þessi einkenni geti komið fram er engan veginn víst að svo sé.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur