Er Pariet gott ef er sár í vélinda?

Spurning:
Kærar þakkir fyrir skjót viðbrögð.
Ég var hjá lækni í dag og sendi hann mig í lungnamyndatöku og hjartalínurit og allt kom ljómandi vel út. Þannig að það er staðfest. Ég er þrungin af vefjagigt og eins gæti maginn ogeða vélindað verið að pirra mig. Hann telur að ég sé með bólgur eða sár í vélinda og vill prufa Pariet. En ég held að Pariet virki nú varla ef um sár er um að ræða í vélinda. Væri eitthvað annað lyf betra?Ég er dálítið hrædd þegar upp kemur svona vesen því að ég missti ungan son minn, 9 ára gamlan af völdum krabbameins og þá verður maður skelkaður þegar eitthvað kemur uppá.Kærar þakkir fyrir svör.

Svar:
Hér eru á markaði fjögur lyf úr flokki svokallaðra prótónpumpuhemla, en þau eru m.a. notuð til meðhöndlunar á maga- og skeifugarnarsárum sem og einkennum bakflæðissjúkdóms frá maga í vélinda með fleiðri eða sárum.Þessi lyf eru ómeprazól (Losec, Lómex), lansóprazól (Lanzo, Lanser), raberprazól (Pariet) og esómeprazól (Nexium). Það er alla vega ljóst að ef um er að ræða sár eða fleiður í vélinda vegna bakflæðis frá maga eru lyf úr þessum flokki það sem gefur besta árangurinn.Almennt eru þessi lyf lögð nokkuð að jöfnu hvað virkni áhrærir. Ég get ekki haldið fram með góðri samvisku að neitt annað lyf sé betra en Pariet í þessu tilviki.

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur