Spurning:
Ég er ófrísk og var sagt að það væri stórhættulegt að taka pilluna eftir að maður væri óléttur. Nú þekki ég eina sem er komin 18 vikur á leið og er búinn að vera á pillunni allan tíman hún var fyrst að fatta það núna. Það sést ekkert á henni en hún er búin að vera með reglulegar blæðingar allan tímann, henni var bara farið að líða eitthvað skringilega og fór til læknis og þar fattaðist að hún væri ófrísk. Hún var send í sónar og þar sást þetta allt. Ég vildi bara vita hvernig það getur staðið á því að hún hafi reglulegar blæðingar allan tímann og hvaða afleiðingar það geti haft að hún hafi verið á pillunni þar til núna.
TAKK, TAKK, vona það þetta sé skiljanlegt, H.
Svar:
Ekki er það nú endilega stórhættulegt en vitaskuld óæskilegt að vera á pillunni á meðgöngu. Það er aðallega vegna kynfæraþroska og innkirtlaþroska fóstursins. Sé hætt tímanlega á pillunni ganga þau áhrif væntanlega til baka. Ástæða þess að hún fær blæðingar er að þegar hún tekur pilluhlé þá verður blæðing frá slímhúð legsins og það heldur áfram vegna hormónasveiflunnar þegar hún tekur pilluhléið sem kemur þótt hún sé barnshafandi.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir