Eru gufuböð hættuleg á meðgöngu?

Spurning:

Eru til einhverjar rannsóknir sem renna stoðum undir þá skoðun sérfræðinga að gufuböð séu hættuleg fóstrinu á meðan á meðgöngu stendur? Skiptir þá engu máli þótt verðandi móðir sé vön slíkum böðum?

Kveðja.

svar

Sæl.

Til eru rannsóknir sem benda til tengsla milli mikils hita og fósturskaða. Ef líkamshiti konunnar hækkar upp fyrir 38,5 gráður snemma í meðgöngu getur það leitt til vanskapnaðar og fósturláts en seinna í meðgöngu er mesta hættan falin í fósturstreitu vegna hitans. Hiti legvatnsins er u.þ.b. einni gráðu heitari en líkamshiti móðurinnar og ef fóstrið þarf að vera í hita yfir 39 gráðum í einhvern tíma eykst hjartsláttur þess og það getur orðið „mótt" og jafnvel orðið fyrir súrefnisskorti. Því eru heit böð óæskileg á meðgöngu og gufubað getur einnig verið varhugavert af sömu orsökum.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir