Góðan daginn,
Ég fæ með reglulegu millibili eymsli í handarkrikann (sem svo fer aftur) og einhver sagði mér að þetta væri líklegast stíflaður svitakirtill.
Er þetta eitthvað sem ég þyrfti að láta kíkja á og get ég einhvern vegin komið í veg fyrir það að svitakirtill stíflast?
kv.
Góðan daginn.
Hársekkir og svitakirtlar í handakrika eiga það til að stíflast, þegar það gerist komast dauðar húðfrumur og önnur óhreinindi ekki út úr húðinni og bakteríur geta sest þar að. Við það getur myndast bólga með meðfylgjandi eymslum. Erfitt er að segja til um það afhverju þetta gerist en offita, reykingar og hormónar eru þættir sem taldir eru geta ýtt undir þetta ástand, það er því lítið sem hægt er að gera til fyrirbyggingar.
Ef bólgan og óþægindin hverfa ekki að sjálfu sér er hægt að leita til læknis. Í sumum tilfellum er hægt að skera á belginn en mjög mikilvægt er að eiga ekki við svæðið sjálfur, að kreista eða reyna að stinga á bólguna heima getur valdið því að sýkingin versni og dreyfist um stærra svæði.
Annað sem getur valdið eymslum í handakrika eru eitlar en þeir eru meðal annar staðsettir í handakrika. Eitlar bólgna upp og verða aumir þegar upp kemur sýking í nálægð við þá í líkamanum t.d. við bakteríu og veirusýkingar. Það gengur svo til baka þegar sýkingin er gengin yfir og eru algjörlega eðlileg viðbrögð líkamans.
Gangi þér vel,
Oddný Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur