Fæðingarþunglyndi

Spurning:
Kæri Doktor.is.

Fyrir nokkrum mánuðum eignaðist ég mitt fyrsta barn og eftir það fékk ég mikið þunglyndi. Maðurinn minn tók fyrst eftir skapbrestunum og ég var orðin mjög grátgjörn og vorkenndi barninu mínu að eiga svona mömmu og hélt að henni leiddist hjá mér. Heimilislæknirinn lét mig fara á þunglyndilyf sem heitir Oropram og það virkaði ágætleg. Svo fór ég þrisvar til sálfræðings og mér fannst það ekki virka en mér leið betur af lyfjunum. Í dag tek ég tvöfaldan skammt (40 mg) og það virkaði fyrst en ekki lengur. Í dag er ég alltaf þreytt og get ekkert gert, vil helst liggja uppi í rúmi. Maðurinn minn hefur miklar áhyggjur af mér og ég hef það líka.

Ég hef líklega haft þunglyndi áður, því áður en ég kynntist manninum mínum var ég með mjög lítið sjálfsálit og var alveg sama um sjálfa mig, ég hef oft sagt að hann hafi alveg bjargað mér. Hvað á ég að gera? Ég bý úti á landi og ég hef eiginlega ekki efni á að fara alltaf til sálfræðings. Mér líður mjög illa. Heimilislæknarnir eru örugglega komnir með leið á mér, því eftir að ég átti litla barnið mitt hefur mér liðið illa bæði andlega og líkamlega.

Svar:

Það er engin vitleysa hjá þér að vilja gera eitthvað í málinu og ég vil eindregið hvetja þig til þess. Er einhver aðili í umhverfinu hjá þér sem gæti veitt þér regluleg viðtöl? Það væri að mínu mati æskilegt að þú fáir viðtöl þar sem þú getur fengið að átta þig betur á þessum sveiflum og vanlíðan. Þú átt rétt á þjónustu frá heimilislæknum fyrir þig og barnið þitt svo láttu þér endilega ekki detta í hug hvort þeir séu leiðir á þér! Stundum taka hjúkrunarfræðingar einnig stuðningsviðtöl svo ég hvet þig til að athuga það. Fyrst og fremst fyrir þig er að opna málið við þá aðila sem eru á staðnum og sjá hvað þér stendur til boða.

 

Ef þú vilt gæti ég komið þér í samband við einhvern hér hjá Geðhjálp sem þekkir þunglyndi. Ef þú vilt þiggja það væri gott ef þú hringdir í síma 570 1700 og spyrðir um mig (Auði) eða sendi okkur email á audur@gedhjalp.is. Það gæti verið stuðningur fyrir þig og gæti hjálpað þér til að átta þig á ástandinu.

 

Hefur þú séð nýju bókina um þunglyndi sem kom út um jólin, það gæti líka verið ágætt fyrir þig að kíkja í hana, það eru í henni ýmsar leiðbeiningar. Hún heitir Líf með þunglyndi og fæst víða í apótekum.

 

Gangi þér vel.

 

Með kærri kveðju,

Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi, Geðhjálp