Ferðalög á meðgöngu?

Spurning:

Halló.

Við erum að flytja heim til Íslands eftir 4 ár í Englandi. Konan mín er komin 28 vikur á leið og okkur langar að vita hvort það sé óhætt að fljúga þegar hún er komin svo langt á leið.

Okkur langar einnig að vita hvort að það geti valdið vöggudauða að fljúga þegar konan er komin svo langt á leið.

Virðingafyllst.

Svar:

Komdu sæll.

Það er talið óhætt að fljúga í þrýstingsjöfnuðum flugvélum langt fram á meðgöngu ef allt hefur verið í lagi með konuna og fóstrið fram að þeim tíma. Það eru helst flugfélögin sem setja fyrirvara um tryggingar seint á meðgöngu. Ekki hefur verið sýnt fram á tengsl flugs við vöggudauða þótt kona fljúgi seint á meðgöngu.

Gangi ykkur vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir