Fráhvarfseinkenni af Nobligan?

Spurning:
Hef tekið Nobligan í 3 ár, er hætta á fráhvarfi ef hætt er?  Magn: 3-5 daglega.

Svar:

Tramadól, sem er virka efnið í Nobligan og nokkrum öðrum lyfjum (Nobligan Retard, Tradolan, Tramól, Tramól-L og Zytram), er ópíóíð verkjastillandi lyf sem hefur áhrif á miðtaugakerfið. Það þýðir að það er skylt efnum eins og morfíni, kódeíni, petidíni og fleiri efnum sem mörg hver eru upprunnin í ópíumvalmúanum. Tramadól hefur þó ekki öndunarslævandi og hægðastoppandi verkun, við eðlilega skömmtun, sem fylgir morfíni og flestum skyldum lyfjum. Ávanahætta af tramadóli er talin mjög lítil. Hún getur þó komið fram í einstaka tilfellum. Fráhvarfseinkenni, álíka og þegar verið er að venja af ópíóíðum, geta komið fram á eftirfarandi hátt: Geðshræring, hræðsla, taugaveiklun, svefnleysi, ofhreyfni, skjálfti og meltingartruflanir.
 Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur