Frunsur á börnum

Fyrirspurn:

Halló,

Ég er að passa yndislegan dreng sem er tæplega 2ja ára og er hann alltaf að fá FRUNSU. Ég veit að frunsur geta verið þrálátar en er eðlilegt að svona lítið barn sé nánast stanslaust með frunsu? Loksins þegar hann losnaði við stóra ljóta frunsu við neðrivör vinstra megin þá líða ekki nema 2 dagar og þá er komin ljót frunsa rétt fyrir utan munninn hægra megin. Er pottþétt að þetta er frunsa eða getur þetta verið eitthvað annað? Getur verið að barn sem fær þetta svona síendurtekið skorti einhver vítamín? Veit samt að hann borðar mjög góðan og fjölbreyttan mat og tekur lýsi. Ef hún fer með hann til læknis er þá best að fara til húðsjúkdómalæknis?

kveðja,
dagmamma

Aldur:
39

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Sæl,

Það er óvanalegt að lítlir krakkar séu með frunsu þó það sé etv. ekki óeðlilegt. Það er sjálfsagt að fara með hann til barnalæknis gjarnan e-n með sérþekkingu í smitsjúkdómum. Hann getur metið hvort það er ástæða til að beita sérhæfðri meðferð með veirulyfjum. Mér finnst ólíklegt að viðkomandi skorti vítamín enda kemur fram að hann borðar hollan og góðan mat. Mikið álag getur hins vegar ýtt undir að frunsur koma fram og getur verið sjálfsagt að kanna það til hlítar. Það kemur til álita að fara með hann til húðsjúkdómalæknis en eins og ég gat um áður teldi ég vænlegra að fara til smitsjúkdómalæknis.

Með kveðju,
Már Kristjánsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum