Fyrirspurn:
Sæl.
Ég á tæplega 3 mánaða dóttur sem er með bakfæði og er að taka inn Gaviscon. Nú er hún komin með hægðartregða sem ég held að sé út frá lyfinu. Allavega á hún erfiðara með að kúka og rembist allan daginn eitthvað sem var ekki áður, loksins þegar hægðirnar koma þá eru þær harðar og svona kögglar, ekki þessar týpísku ungbarnahægðir. Hún er eingöngu á brjósi. Ég var búin að hafa samband við hjúkrunarfræðing sem benti mér á að gefa henni sykurvatn á peli. Ég er búin að reyna það en daman vill ekki sjá sykurvatnið og grenjar eins og ljón þegar ég er að reyna að koma því ofaní hana.
Er eitthvað annað sem ég get gefið henni til að mýkja hægðirnar?
Kv. xxxx
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,
Það er rétt hjá þér að Gaviscon getur valdið hægðatregðu og það er afar erfitt að horfa upp á krílið sitt í slíkum vanda. Það sem ég get bent þér á er að gefa henni smá sveskjusafa/sveskjumauk (eina matskeið tvisvar á dag)eða kaupa í apoteki maltextrakt og setja það út í brjóstamjólk í pela einu sinni á dag. Það er viðbúið að hún fái í magann fyrst þegar hún fer að losa sig við kúkinn ef þú gefur henni sveskjusafa/maltextrakt en það ætti að ganga yfir. Ef ekkert dugar til hafðu aftur samband við lækninn ykkar og biddu hann að athuga með hvort annað lyf geti hentað betur.
Vona að þetta komi að gagni.
Bestu kveðjur,
Guðrún Gyða Hauksdóttir
hjúkrunarfræðingur