Get ég bætt einhverju við æfingaprógrammið mitt?

Spurning:

Sæl Ágústa.

Í febrúar síðastliðinn var ég að byrja að hreyfa mig eftir u.þ.b. 10 ára hlé. Á þessum 10 árum hafði ég bætt við mig 20 – 25 kílóum. Ég var 105 kg þegar ég byrjaði en ég er 1,90 m á hæð (ég var reyndar 112 kg þegar ég var þyngstur fyrir u.þ.b. ári síðan). Ég byrjaði á því að nota göngubretti og gekk 3 kílómetra 4 sinnum í viku og gerði magaæfingar í tæki á eftir. Smám saman fór ég að hlaupa þessa 3 kílómetra og venjulega á u.þ.b. 15 mínútum. Í maí fór ég að hlaupa úti og hljóp 3 km tvisvar í viku og lengra, kannske 4,5 – 5 km einu sinni í viku. Beinhimnubólga hefur dregið úr tíðni hlaupanna og ég hef reynt að vinna það upp með því að synda 500 – 1000 metra dagana sem ég hef ekki hlaupið. Auk þessa er ég farinn að hjóla 2-3 í viku, alls um 30 km á viku.

Þrátt fyrir þetta hef ég ekki lést mikið. Ég hef ekki farið í fitumælingu en ég tel mig mjög auðveldlega sjá, í speglinum, að fituhlutfallið í líkamanum hefur minnkað. Ég hef verið að nota Nupolet til að létta mig, samhliða þessum æfingum, en léttist lítið. Mér finnst reyndar varla að líkaminn nái að endurnýja orkuna milli æfinga.

Hvaða, ef einhverjum, æfingum á ég að bæta við prógrammið og hverju get ég sleppt. Hvað ráðleggur þú í sambandi við mataræði og þá jafnvel fæðubótarefni (ég hef verið að taka L-Carnatine af og til 1/2 tíma áður en ég skokka).

Svar:

Sæll.

Þú virðist vera á réttri leið. Þú nefnir reyndar lítið hvað þú hefur verið að borða en þú ættir að borða u.þ.b. 1800-2000 he af hollum og næringarríkum mat reglulega yfir daginn. Bættu við æfingaálagið eftir því sem þér vex þróttur. Ég mæli ekki sérstaklega með fæðubótarefnum. Þú getur fengið öll næringarefni úr fæðunni. Sneyddu að mestu hjá fitu og sætindum. Gættu þess að borða ekki of lítið. Þú verður orkulaus og líkaminn fer í vörn og reynir að halda fast í fituna sem til er. Ef þú hreyfir þig í 30 mínútur á dag alla daga vikunnar muntu án efa sjá meiri árangur. Spegillinn er oft besta viðmiðunartækið, betri en vigtin. Þú segist sjá mun í speglinum og það er frábært. Þú ert að bæta á þig vöðvamassa og massinn brennir hitaeiningum og gerir líkamann að „brennsluvél”. Settu því æfingarnar á lífstíðar áætlunina og gættu hófs í mataræði.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari