Getur niðurgangur tengst meðgöngu?

Spurning:
Ég er komin 7 vikur á leið og er farin að finna fyrir ógleði á morgnana. Þegar það gerist fer maginn á hvolf og ég fæ stundum niðurgang á morgnana. Er það eðlilegt? Ég hef smá áhyggjur af þessu. Ég fæ frekar niðurgang heldur en að æla. Viljið þið endilega svara mér sem fyrst. Takk kærlega

Svar:
Það er nú frekar óvenjulegt að konur fái niðurgang í stað uppkasta á meðgöngu en þó ekki óþekkt. Við ógleði og niðurgang gilda sömu lögmál og við ógleði og uppköst, þ.e. reyna að drekka vel í smáskömmtum allan daginn, borða lítið í einu og oft og forðast kryddaðan og feitan mat. Verði niðurgangurinn mikill og vatnskenndur skaltu láta lækni skoða þig því vitaskuld má ekki skella öllu á meðgönguna og það er mögulegt að um sýkingu sé að ræða.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir