Grönn og í megrun

Spurning:

Sæll.

Ég er 18 ára stelpa. BMI-stuðull minn er 21 og því er ekki hægt að segja að ég sé feit. En samt sem áður þá er ég í megrun og langar að losna við 5-6 kg. Það er ekki langt síðan ég var í þeirri þyngd og var talin rosa flott. Þá var ég hinsvegar búin að vera í megrun í 10 mánuði. Ég borðaði ágætlega og hreyfði mig mjög mikið.

Eins og svo oft er talað um þá er þetta einn vítahringur þó hann hafi nú ekki verið stór í mínu tilfelli þar sem ég var þyngri áður en ég er núna. Ég get alveg viðurkennt það að mér finnst ægilega gott að borða þegar ég er byrjuð á því og að setjast södd fyrir framan sjónvarpið getur verið svaka gott.

Þegar ég kemst svo af stað í megrun finnst mér algjört sælgæti að fá svona einu sinni í viku góðan kjúklingarétt og hrísgrjón og fá mér síðan nokkrar kex fyrir framan sjónvarpið.

Þá komum við að spurningunni: Ég er núna í megrunarkúr sem gengur út á að losna við ketóna eins og þeir segja í kúrnum. Ég hef oft farið á þennan kúr áður sem nær yfir tvær vikur en núna í fyrsta skipti fæ ég snöggan svima af og til og einnig smá flökurleika. Mamma mín segir að þetta sé sykurfall, því spyr ég þig: Hvað er sykurfall og er það skaðlegt?

Ég fæ svimann einkum ef ég er mjög svöng en fæ mér samt sem áður ekki að borða heldur bíð bara eftir næstu máltíð. Ég ætla að skrifa upp dæmi um fæðu sem ég borða einn dag vikunnar á þessum kúr og vil gjarnan fá álit þitt á honum. Hvort þú telur fæðið innihalda of mikið af próteinum eða kolvetnum. Ég tel mig vita alveg helling um megrun og það að helst eigi að borða 6 sinnum á dag og stunda hreyfingu. Ég borða hinsvegar bara 3svar á dag, gulrætur á milli mála, drekk mikið af te og eina dós af diet kók. Svo fer ég í ræktina á hverjum morgni þar sem ég hjóla 10 km á 20 mínútum á þrekhjóli og fer svo í tækin í klukkutíma.

Ég reyni að halda mig undir 1000 hitaeininum á dag en SAMT finnst mér ég ekkert léttast að ráði. Eru þetta öfgar hjá mér eða getur verið að brennslu getan mín sé bara svona lág? Einnig langar mig að nefna að leið og ég byrja í megrun eins og síðasti kúr sem stóð í 10 mánuði (fyrir utan allt svindlið um jólin) hætti ég á túr eða fór aðeins 3 á þessum 10 mánuðum og í þau skipti fór ég rosa lítið …

Matardagbók:

kl: 8:30 brauðsneið með 1/2 banana + teglas
vatn í ræktinni ½ líter
kl: 13:30 túnfiskdós í vatni 100 gr + rifið kál og paprika + epli, alltaf nóg af vatni og te á milli máltíða
kl: 19:30 kjúklingur + salat (kál, tómatar, gúrka, paprika)

Dæmi um annan dag:

brauð + ½ banana (það er það sem ég borða alltaf á morgnanna)

ávaxtasalat (ca. 3 stk) hakk + salat (hakkið er þurrsteikt, olíulaust og mjög magurt)

Það sem mér liggur mest á er að fá svar við svimanum. Maður fær stundum smááfall þegar hann kemur en hann er aðeins í svona 2-3 sekúndur.

Með fyrirfram þökkum.

Ein „desperate” að komast aftur í 24/34 stærðina á buxunum sem liggja uppi í skáp.

Svar:

Komdu sæl og blessuð.

Já, þetta eru svo sannarlega öfgakenndar neysluvenjur sem þú ert í og hefur, að mér skilst, tamið þér í gegnum tíðina. Að sjálfsögðu hvet ég þig til að láta af þessum öfgum því ef þú gerir það ekki er öruggt að það muni á einn eða annan hátt bitna á heilsu þinni og þá fyrr en síðar. Í reynd heyrist mér að líkaminn sé nú þegar farinn að gefa eftir en eitt fyrsta merki vannærðs líka er að blæðingar stöðvast eða verða stopular!

Þessi megrunarkúr sem þú segir frá er afleitur og margt út á hann að setja ekki síst það að hitaeiningarnar eru af allt of skornum skammti. Það er líklegast að sviminn tengist þessari ónógu orkuneyslu en aðrar ástæður geta legið að baki eins og járnskortur.

Fyrri dagur:
Fæðutegund Magn Hitaeiningar Brauðsneið 1 sneið 75 Banani½65 Te1 bolli2 Túnfiskur 100 gr95 Kál, paprika100 gr25 Epli1 stk100 Te2 bollar4 Kjúklingur100 gr120 Salat150 gr40 Heildarhitaeiningafjöldi:526

Seinni dagur:
Fæðutegund Magn Hitaeiningar Brauðsneið 1 sneið 75 Banani½65 Te1 bolli2 Ávextir 3 stykki300 Te2 bollar4 Hakk100 gr150 Grænmeti150 gr40 Heildarhitaeiningafjöldi:636

Þessi megrunarkúr þinn er hræðilega óhollur og ég verð að hvetja þig til að hætta honum strax. Allt of fáar hitaeiningar og næringarlegir þættir (varðandi vítamín, steinefni o.s.frv.) í molum. Þú ert í mikilli þjálfun og grönn en engu að síður ertu í svelti (samanber dagana hér að ofan). Algeng orkuþörf ungra kvenmanna sem þjálfa mikið, eins og þú gerir, er á bilinu 2000-4000 hitaeiningar á dag og því augljóst að 1000 hitaeiningar, eða færri, nægja engan veginn til að viðhalda orkuþörf og þar með heilbrigði líkamans. Þú ert aðeins 18 ára og líkaminn ber þegar merki hnignunar, samanber stopular blæðingar og svimaköst. Og eitt er víst að með sama áframhaldi mun líkami þinn hnigna og eldast á ofurhraða!

Í guðana bænum leitaðu þér aðstoðar hjá fagaðila, svo sem næringarfræðingi/næringarráðgjafa, áður en þú stefnir heilsu þinni í enn meiri hættu en orðið er.

Óska þér velfarnaðar.
Kveðja, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur