Spurning:
Við erum hjón sem eigum í vanda með kynlífið, maðurinn minn er með mikil kynlífsvandamál. Hann hefur ENGA löngun í kynlíf, það er alveg sama hvað ég reyni til að koma honum til það þýðir ekkert að reyna eitt eða neitt. Hann er á lyfjum vegna þunglyndis hann tekur Cipramil 80mg á dag. Getur það eitt verið nóg til að ekkert gerist hjá honum?
Kveðja ein með miklar áhyggjur.
Svar:
Kvíði og hræðsla við að standa sig ekki getur valdið því að hann fer að hugsa allt of mikið um kynlífið og ef svo ekkert gerist þegar á reynir þá getur kvíðinn magnast. Ef þetta stendur lengi svona þá minnkar löngunin því það er erfitt að standa undir því að “mistakast” alltaf. Þá getur þetta jafnvel leitt til þunglyndis og þá er þetta komið í nokkurs konar vítahring.
Framleiðandi Cipramils ábyrgist að hámarki 60 mg á dag við þunglyndi en oft eru samt sem áður gildar ástæður fyrir því að læknar noti hærri skammta. Hann er því á stórum skömmtum. Aukaverkanir eru t.d. erfiðleikar við einbeitingu, minnkuð kynhvöt og truflun á sáðláti. Lyfjatakan getur átt stóran þátt í áhugaleysinu og einnig margt annað. Best er að ræða þetta við t.d. heimilislækninn.
Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur