Hvað er Interferon-beta?

Spurning:

Góðan dag.

Ég hef áhuga á því að vita hvað Interferon-beta er. Ég veit að það er gefið MS sjúklingum. Það sem ég hef áhuga á að vita er: Hvernig virkar það? Hefur það aukaverkanir? Var það framleitt gagngert til þess að hægja á MS og er talið að það virki?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Interferón eru flokkur náttúrulegra glýkópróteina með margvíslega líffræðilega verkun (t.d. ónæmisstýrandi, veirudrepandi og frumubælandi). Interferón beta-1a samanstendur af réttri amínósýruröð náttúrulegs beta interferóns manna. Það er framleitt með erfðatæknilegum aðferðum.

Verkun verður með þeim hætti að lyfið binst sértækum viðtökum utan á frumunum. Þessi binding verður til þess að flókinn ferill inni í frumunum hefst og búa frumurnar til ýmis efni. Nákvæm verkun á MS er mér vitanlega ekki þekkt. Interferon beta hefur sýnt sig að fækka köstum og gera þau vægari og seinka framvindu fötlunar hjá MS sjúklingum sem fá köst en batnar á milli.

Ýmsar aukaverkanir eru þekktar en þær algengustu eru inflúensu lík einkenni, svo sem vöðvaverkir, hiti, þreyta, höfuðverkur, hrollur og ógleði. Þessi einkenni eru mest áberandi í byrjun meðferðarinnar og hafa svo tilhneigingu til að minnka við áframhaldandi meðferð.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur