Hvað er sinaslíðursbólga?

Spurning:

Ég fór til læknis um daginn vegna þess að ég sneri mig um ökklann og spurði í leiðinni hvers vegna ég væri alltaf aum í fótunum. Mér var sagt að það væri beinaslíðursbólga. Hvað er það og hvað er hægt að gera? Þetta er stöðugt og búið að vera mjög lengi. Annað langar mig til að spyrja um. Ég er búin að vera með slæma úlnliði í mörg ár (u.þ.b 10 ár). Þetta lýsir sér sem sársauki við sumt álag, t.d. get ég ekki stundað gólfleikfimi þar sem þarf að vera á fjórum fótum, en ég get haldið á 20 kg poka ef álagið er sem tog. Ég hef farið til læknis sem sagði að þetta væri bara ELLI, ég vil nú helst ekki kyngja því hráu því að ég er bara 32 ára!!

Svar:

Ég vona að þú sért búin að jafna þig í ökklanum. Orðið beinaslíðursbólga kannast ég ekki við og án þess að skoða þig get ég ekki gefið þér nákvæmar upplýsingar en grunar að það sé sinaskeiðabólga sem þú átt við. Sinaskeiðabólga er bólgusjúkdómur í sinum og sk. sinaslíðrum sem liggja umhverfis sinarnar. Algengast er að sjúkdómurinn leggist á ökkla, úlnliði, hendur og axlir og því ekki ólíklegt að þetta sé það sem er að valda þér óþægindum. Staðreyndin er sú að með aldrinum missa sinarnar teygjanleika sinn og aukast þá líkurnar á að bólgur komi í sinarnar. 32 ár er hinsvegar ekki hár aldur og engin ástæða fyrir þig að sætta þig við þessi óþægindi. Mig langar að benda þér á að lesa skjal á Doktor.is um sinaslíðursbólgu og jafnframt ráðlegg ég þér að hafa aftur samband við heimilislækninn þinn og fá viðeigandi meðferð.
Gangi þér vel,

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir