Hvenær byrja blæðingar aftur eftir barneignir?

Spurning:

Halló.

Ég á tæplega tíu mánaða gamla dóttur sem fær brjóst 1-2 á sólarhring og mér finnst sem mjólkin sé mjög takmörkuð sem er í góðu lagi því við erum að vinna í því að hætta þessu. Það sem ég var að velta fyrir mér er að ég er ekki byrjuð á blæðingum ennþá, er það alveg eðlilegt?? eða byrjar maður kannski ekki fyrr en maður er alveg hættur með á brjósti.

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Það er algengt að blæðingastopp vari þar til barnið er mikið til hætt á brjósti. Hormónið prolaktín, sem myndast við brjóstagjöfina, heldur niðri kvenhormónunum sem stjórna tíðahringnum. Líklegt finnst mér þó að blæðingar hefjist innan tveggja mánaða úr því dóttir þín tekur brjóstið orðið þetta sjaldan. Þótt blæðingar komi ekki strax getur egglos orðið, þannig að passaðu upp á getnaðarvarnirnar ef þú hugar ekki á barneignir strax aftur.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir