Spurning:
Vonandi fæ ég svar sem allra fyrst, mjög mikilvægt fyrir mig!
Ég fór á rúmlega þriggja mánaða skammt af Roaccutan í haust, til að laga mjög slæma húð. Síðasta sumar hafði ég farið á frjósemislyfið Pergotime því illa gengur að verða ólétt en ekkert breyttist hjá mér nema bólum fjölgaði í andliti. Bólurnar komu eftir að ég hætti á pillunni og hafa bara aukist síðan. Mér leið það illa út af slæmu húðinni í haust að ég fór til húðsjúkdómalæknis sem skrifaði upp á Roaccutan fyrir mig og sagði mér að ég þyrfti að geyma barneignarhugleiðingar á meðan ég tæki lyfið og rúmlega það. Hann skrifaði upp á 6 mánaða skammt af getnaðarvarnarpillu sem ég byrjaði að taka en hætti fjótlega án þess að ráðfæra mig við hann. Notaði bara aðrar getnaðarvarnir í staðinn og passaði mig vel. Síst af öllu vildi ég verða ólétt og þurfa að fara í fóstureyðingu, en ég vildi ekki vera á hormónapillu.
Ég hætti á Roaccutan í byrjun desember. Núna er sem sagt mánuður liðinn síðan ég tók síðustu töfluna og langar mig að athuga hvort það sé ekki örugglega í lagi að ég fari að reyna að verða ólétt aftur. Það stendur á leiðbeiningarblaði sem lyfinu fylgdi að þeir sem tækju lyfið mættu alls ekki verða óléttir á meðan töku stendur og mánuði eftir. Er alveg öruggt að lyfið er farið úr líkamanum eftir mánuð? Get ég farið í blóðprufu til að tékka á því?
Það eru svosem ekki miklar líkur á því að ég verði ólétt, miðað við minn vanda þar. En ef ég skyldi verða svo heppin þarf ég þá nokkuð að hafa áhyggjur af því að eitthvað sé að fóstrinu því svo stutt sé síðan ég tók þetta lyf?
Takk fyrir mig.
Svar:
Einum mánuði eftir að hætt er að taka Roaccutan er lyfið örugglega allt horfið úr líkamanum og óhætt á að vera að verða ófrísk.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur