Hvernig lýsir mjaðmagigt sér?

Spurning:
Mig langar að vita hvernig mjaðmagigt lýsir sér. Þannig er háttað hjá mér að ég er með nánast stöðugan verk í mjöðm og heldur versnar það ef kalt er í veðri. Þetta getur verið mjög vont ef ég er búinn að sitja í bíl án þess að hreyfa mig í t.d.1-2 tíma. Einnig er þetta oft slæmt fyrst á morgnana þegar ég er að koma mér á lappir

Með fyrir fram þökk.

Svar:
Sæll!
Því miður er ekki hægt að segja til um hvaða gigtarsjúkdómur hjráir þig í mjöðminni þegar þú talar um mjaðmagigt. Slitgigt er algengasti gigtarsjúkdómurinn og leggst hún mjög oft á mjaðmaliðinn en einnig á aðra liði. Misjafnt er hvaða liðir verða slæmir og ekki er alltaf vitað um orsökina fyrir slitgigtinni. Allt sem annaðhvort eykur skemmd á brjóski eða dregur úr viðgerðarhæfni þess getur leitt til slitgigtar. Aukuð álag á liðinn t.d. beinbrot, skemmdir á liðþófum eða liðböndum, lamanir á vöðvum og mjög mikið endurtekið álag á sama liðinn geta aukið líkur á að fá slitgigt. Einkenni slitgigtar eru stirðleiki, minnkuð hreyfigeta, sársauki og stundum þroti. Við greiningu er stuðst við einkenni sjúklings og læknisskoðun. Aðrar rannsóknir geta verið gagnlegar en það fer eftir því hvaða liður er veikur. Ef þú telur þig vera með slitgigt eða annan gigtarsjúkdóm ættir þú að leita til gigtarlæknis til að fá að vita hvað er að. Gigtarfélag Íslands hefur gefið út bækling um slitgigt og er hægt að kaupa hann á skrifstofu félagsins að Ármúla 5 í Reykjavík. Sjá einnig vefslóðina: www.gigt.is

Með kveðju

Starfsfólk Gigtarlínu
Gigtarfélag Íslands