Hvernig má fjarlægja upphleyptan jarðaberjablett?

Spurning:
Ég á barn á leikskólaaldri sem hefur verið með rauðan upphleyptan fæðingarblett (háræðaflækja/jarðarberjablettur) á öðrum augnhvarminum frá fæðingu. Mig langar að vita hvort einhverjar líkur eru á að þetta hverfi sjálfkrafa og ef ekki hvort, hvernig og hvenær ráðlegt sé að láta fjarlægja þetta. Það skal tekið fram að þetta háir barninu ekki á nokkurn hátt.

Svar:
Komdu sæl. Þakka þér fyrirspurnina. Æðaflækja þessi nefnist á læknamáli HEMANGIOMA. Þetta er góðkynja æxli sem stafar af mikilli útvíkkun á æðum sem mynda hnút, einn eða fleiri, misstóra. Þetta er ekki óalgengt og það fæðast alltaf nokkur börn á hverju ári með slík mein. Stundum ganga þessi æxli til baka að sjálfu sér en oftast eru þau meðhöndluð með ljós-laser-geislameðferð. Æðaflækjum þessum er hægt að eyða með ljós-laser-geisla meðferð. Með því að beina ljósi og hita að æðunum er blóðið storkað inni í þeim og sem verður þá að dauðum vef. Það er eitthvað sem líkaminn vill ekki hafa og reynir að losa sig við. Varnarkerfi líkamans fer því af stað og átfrumur hvítu blóðkornanna ráðast á þessar dauðu frumur og eyða þeim úr líkamanum með því að éta þær upp. Stundum næst mikill árangur af einni meðferð en hjá flestum sem eru með mikið og/eða stóra æðaflækju getur þurft að endurtaka meðferð – að meðaltali allt að um 5 sinnum.

Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í kostnaði þessarar meðferðar.

Bestu kveðjur, Hrönn Guðmundsdóttir.