Hvert á ég að leyta ef ég vil taka líf mitt

Ég vil ekki lifa lengur hvert á ég að leyta?

 

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Aðstoð við líknardráp er ólöglegt á Íslandi ef ástæður eru ólæknandi sjúkdómur en veitt er líknandi meðferð til að lina þjáningu og auka lífsgæði.

Flestir ganga einhvern tímann á ævinni í gegnum tímabil þar sem erfitt er að sjá leið út úr aðstæðum, tilfinningalegum sársauka eða svartnætti og eru eðlileg viðbrögð að vilja hverfa af vettvangi og jafnvel taka sitt eigið líf.  Pieta (pieta.is) eru sjálfstætt starfandi samtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og mæli ég eindregið með að þú hafir samband við þau en þar er opinn sími virka daga frá 9 til 16, síminn er 552 2218 og síðan er Rauði krossinn með símann 1717 þar sem sérþjálfað fólk er til viðtals.

Heilsugæslan býður upp á viðtöl hjá sálfræðingum og ráðlegg ég þér að hafa einnig samband við þinn heilsugæslulækni sem getur haft milligöngu um tíma hjá sálfræðing.

Verst er að vera einn með slíkar hugsanir og þá er meiri hætta á að festast í þeim og sjá ekki leiðirnar út.  Það er alltaf betra að fá samtalið við annan sem hægt er að treysta, vin, fjölskyldu og eða þann sem hafa reynslu af þessum málum og fá annað sjónarhorn og aðstoð í gegnum öldudalinn. Sjálfsvíg er endanlegt og banvænt en vanlíðan er tímabundin þó þú sjáir ekki til lands núna.

Gangi þér vel.

Guðrún Ólafsdóttir,

hjúkrunarfræðingur