Ítrekuð bólga í fæti ungs drengs?

Spurning:
Mig vantar virkilega smá álit hérna. Ég bið afsökunar á því hvað þetta er langt bréf, en ég held ég verði að segja ykkur alla söguna svo að þið skiljið hvað ég er að fara. Málið er að við búum í Danmörku. Sonur minn sem er 4 ára veiktist í byrjun ársins allheiftarlega.
Ég ætla samt að byrja á því að segja ykkur aðeins hvað undan er gengið. Þegar sonur minn var eins árs fékk hann eitthvað í hnén og gat ekki stigið í lappirnar. Við fórum með hann til læknis og þeir sögðu að þetta hefði trúlega verið vírus sem hann hefði fengið og farið í hnéð. Hann var líka á þessum tíma alltaf að fá hitatoppa. Við fórum með hann til Þrastar Laxdal barnalæknis og hann skoðaði hann og rannsakaði bak og fyrir og hélt að þetta væri þvagfærasýking, en ekkert kom út úr því og engin skýring. Í júní s.l. fór hann til Íslands og gat þá allt í einu ekki stigið í annan fótinn. Hann fór til læknis sem sendi hann í röntgen, en ekkert kom út úr þessu. Hann var samt bólginn á hnénu. Í ágúst s.l. fórum við aftur til læknis því hann bólgnaði upp á hægra hné, en læknirinn hérna úti sagði að þetta væri örugglega bara vatssöfnun útaf hita og gerði ekkert í því meira. Strákurinn gat samt bara rétt tyllt á löppina.
Eftir þetta og í haust hefur hann oft verið að vakna á morgnana, ekki bólginn, en illt í hnénu og kvartar yfir því, en svo þegar ég sæki hann á leikskólann seinna á daginn þá eru engir verkir meir. Og svo núna, aðalatriðið: Hann var að koma heim frá Íslandi í janúar og morguninn sem var lagt af stað þá var honum svo illt í hægra hné og haltraði. Þegar hann kom hingað út, byrjaði þetta bara að versna og um kvöldið gat hann nánast ekkert stigið í fótinn. Ég hringdi á læknavaktina og mér sagt að fara bara með hann til heimilislæknis morguninn eftir. Um nóttina vaknaði hann og grét af kvölum og það mátti ekki snerta fótinn hans. Ég mældi hann og var hann þá með 7 kommur. Daginn eftir vaknaði hann með hita og ældi og ældi. Hann gat sig hvergi hreyft og það mátti alls ekki koma við fótinn á honum án þess að hann öskraði af lífs og sálarkröftum. Hann var orðinn stokkbólginn yfir hnéð. Ég fór með hann til heimilislæknis og hann var sendur á barnadeild á spítalanum. Á leiðinni á spítalann ældi hann í bílnum og missti svo meðvitund. Hann var svo veikur að ég hef aldrei séð hann svona veikan áður. Á spítalanum skoðuðu einir tveir læknar hann og þeir spurðu okkur út í allt mögulegt og komust að því, þar sem það væri mikil gigt í minni fjölskyldi að líklega væri hann með svokallaða barnaliðagigt. Þeir sendu hann í ómskoðun og sögðu eftir það að þetta væri líklega ekki sýking, það væri næstum enginn vökvi í hnénu og hann ekki heldur rauður á húðinni. Giktarlæknir var líka fenginn til að skoða hann. Hann var með um 38 stiga hita þarna og þeir ákváðu að leggja hann inn án þess að vita hvað þeir ætluðu að gera við hann. Það var ekki einu sinni hægt að strjúka yfir fótinn á honum því þá fann hann svo til og eins og þetta næði alla leið upp í mjöðm.
Daginn eftir þá var ákveðið að hann ætti að fara í aðgerð og þeir myndu þá taka sýni. Hann var svæfður og gerð tvö lítil göt sitt hvoru megin við hnéskelina. Eftir aðgerðina héldu þeir enn fram að þetta væri barnaliðagigt. Þeir sögðu að það hefði nánast enginn vökvi verið en slímhimnan væri svo bólgin og þeir hefðu tekið eitthvað af henni til að létta á bólgunni svo honum liði betur. Þeir sendu sýnin í ræktun og þegar hann var útskrifaður fimm dögum seinna var okkur sagt að niðurstöður lægju fyrir eftir viku til tíu daga. Það leið og beið og eftir 14 daga hringdi ég og fékk samband við lækninn sem sagði að þetta væri ekki barnaliðagigt, það væri ekkert sem benti til þess. Hann sagði jafnframt að hann vissi ekki hvað þetta væri og það væri ekki óalgengt að börn bólgnuðu svona upp og færu í svona aðgerð án þess að það fyndist nokkur skýring á því.
Mig langar virkilega að heyra ykkar álit á þessu. Sumir hafa verið að segja við mig að fara með hann til Íslands og láta rannsaka hann þar því heima væru betri læknar og fljótari ferli. Aðrir segja að læknarnir hérna úti séu betri. Myndu t.d. læknarnir heima gefast bara upp á þessu og gera ekkert meira í því? Mig langar virkilega að vita því barnið er að koma heim til Íslands í mars og þá væri kannski hægt að fara með hann til læknis þar. Finnst ykkur ástæða til þess? Ég vona að mér verði svarað af barnalækni (ekki hjúkrunarfræðingi) þar sem ég tel virkilega mikilvægt fyrir mig að fá álit barnalæknis heima á þessu. Virðingarfyllst………og með fyrirfam þökk

Svar:
Blessuð.Það er erfitt að svara þessu til hlítar því til þess þarf að skoða drenginn og gera rannsóknir. Þetta hljómar nú eins og eitthvert form af liðagigt en barnaliðagigt getur lýst sér í mismunandi myndum. Ég get ekki sagt að læknar á Íslandi séu eitthvað betri en annars staðar en við erum með hér á landi barnalækni sem sér flest börn með liðagigt og heitir sá J&oacu
te;n R. Kristinsson og er hann með stofu á Háteigsvegi 1. Ég myndi ráðleggja þér að leita til hans. Með kveðj Þórólfur Guðnasonu