Jákvætt þungunarpróf, en ekki ólétt?

Spurning:
Sennilega leita mjög margir til ykkar áður en þeir fara til læknis en þið eruð mitt síðasta ráð. Veit ekki hvar á að byrja. Fyrir tæpu ári eignaðist ég barn, var með það á brjósti þar til ca. 9.mánaða aldurs. Byrjaði svo á blæðingum bara viku eftir að ég hætti brjóstagjöfinni (1.des.03). Blæðingarnar voru eðlilegar að lengd (7 dagar). Ég er með 37 daga tíðahring en ég byrjaði aftur 1.jan.04. og þá stóðu blæðingarnar bara í 4 daga sem hefur aldrei komið fyrir mig, er alltaf rétt upp á dag. Það kom mjög lítið blóð þessa daga en því fylgdi þeim mun meira slím sem var sko stundum svo dökkt að ég hélt að það væri svart en mjög dökkbrúnt. Ég talaði við kvensjúkdómalækninn minn og vildi hún að ég færi á pilluna en ég hef ekki verið á neinum getnaðarvörnum frá því ég átti, heldur kusum við að nota smokk (fyrir utan 1 mánuð að ég tók brjóstapilluna en það blæddi í gegnum hana þannig að ég hætti) en þann tíma notuðum við líka smokk. Ég fékk lyfseðill á pilluna og keypti þungunarpróf, bara svona fyrir mig. Síðan kemur bara jákvætt próf, við náttúrulega hissa því þetta var meira djók. Við tókum annað og annað og annað og alltaf kom jákvætt. Ég fór þá til heimilislæknisins og bað hann að taka blóðprufu sem hann gerði. Niðurstaðan úr henni var neikvæð. Til að vera örugg bað ég kvensjúkdómalækninn minn að lesa úr niðurstöðunum líka og var niðurstaðan sú sama, neikvæð, ég gæti ekki verið þunguð.
Í morgun 5. feb.04. tók ég síðan annað próf og kom líka jákvætt svar. Síðan um kvöldmat byrja ég á blæðingum ef blæðingar skyldi kalla. Þær virðast ætla að vera eins og síðast, pínu blóð, slatti af brúnu sulli. Þetta er nú sagan öll. Mínar spurningar eru þessar: Hvað er með þessi þungunarpróf? Er blóðprufan ekki marktækari? Hvernig blæðingar eru þetta bara, ég er bara ekki að skilja, líður hálf illa yfir þessu, að þetta komi svona ógeðfellt út og skrítið.
Nú er ég örugglega búin að taka yfir 10 próf og öll jákvæð, hvað er málið? Ég vil endilega fá svör við þessu ef ekki frá ykkur, gætuð þið þá bent mér á hvert ég á að leita. Bæði heimilislæknir og kven.sj.læknir virðast bara ekkert vita.
Með fyrirfram þökk.

Svar:
Ja ég verð nú að vera þér sammála um að þetta er allt saman heldur skrýtið. Það getur alltaf skeð að eitt þungunarpróf sé ómarktækt en mörg þungunarpróf sem sýna alltaf jákvætt hljóta að vera rétt, sé rétt af þeim lesið (það eiga að koma tvö blá strik). Hins vegar ætti það þá að koma fram mun nákvæmar á blóðprufunni. Værir þú barnshafandi ættu einnig blæðingarnar að hætta. Til að ganga úr skugga um hverju þetta sætir þarftu að fara til kvensjúkdómalæknisins þíns og það þarf að skoða þig í sónar til að sjá hvort eitthvað er í leginu eða hvort e.t.v. geti verið um utanlegsfóstur að ræða. Pantaðu þér tíma sem allra fyrst.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir