Kærasti minn fær sjaldnar fullnægingu.

Ég er 25 ára og kærastinn minn er nýorðinn 30 ára og við erum búin að vera saman í rúmlega 1 ár. Fyrstu vikurnar sem við vorum að hittast þá fékk hann það í hvert skipti frekar fljótt(á 5-10mínútum) en svo fyrir um 3 mánuðum síðan ákváðum við að flytja inn saman og hann fær það í mesta lagi 1 sinni í viku yfirleitt sjaldnar og við gerum það tvisvar til þrisvar á viku. Ég gef honum alltaf munnmök eða nota hendina áður en við gerum það. Það er ekkert annað að sambandinu, okkur kemur mjög vel saman.
Hann er virkilega heilsuhraustur, drekkur nánast aldrei áfengi, reykir ekki, er ekki á neinum lyfjum og er mjög lífsglaður einstaklingur.

Þetta veldur mér áhyggjum en ég hef ekki rætt þetta við hann, veit ekki hvernig ég á að byrja þessa umræðu. Ef þið gætuð gefið mér ráð hvernig ég get talað við hann um þetta væri það vel þegið. Er svo hrædd um að vandamálið verði bara ennþá verra ef ég tala við hann um þetta, af því þá finnur hann kannski fyrir pressu.
Eru meiri líkur að þetta verði verra með tímanum heldur en að þetta lagist?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Skiljanlega veldur þetta þér áhyggjum, en þarna getur ýmislegt legið undir og ógerlegt fyrir okkur að spá fyrir hvað kærasti þinn er að hugsa. Svo ég ráðlegg þér að rífa plásturinn bara af og opna umræðuna.

Ef þið lærið ekki strax að tala saman þá er spurning hvernig þið munuð tækla önnur mál í framtíðinni því samskipti er og verða alltaf lykillinn af góðum samböndum.

Að nota orð eins og „ég upplifi“ er gott að nota því þá ertu eingöngu að lýsa þinni líðan, því við getum ekki gefið okkur hver hans upplifun er í þessum málum.

Ef þið náið ekki að leysa úr þessu þá mæli ég eindregið með kynlífsráðgjöf (auðvelt að finna í leitarvélum á netinu), en þú getur einnig byrjað á að fara ein í tíma og fengið ráðgjöf ef þú þorir ekki að taka samtalið strax við kærastann. En hjá ráðgjafanum færðu dýpri og betri leiðsögn.

með kveðju,

Lára Kristín Jónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur