Komin 17 vikur með stóran maga?

Spurning:
Halló
Ég er komin 17 vikur á leið og langar að vita hvort það sé eðlilegt að maginn á mér er orðinn nokkuð stór. Þetta er sko svolítið skrítið, því mér finnst ég enn finna fyrir leginu neðst á kviðnum en samt hefur sá partur magans lítið stækkað… hins vegar er maginn fyrir ofan legið orðinn dáldið útblásinn… ég giskaði á í upphafi að þetta væri nú bara loft þar sem ég hafði átt dálítið erfitt með hægðirnar en nú hafa þær verið ágætar í viku en maginn bara stækkað enn meir… er þetta eðlilegt? Ég veit að legið á að færast upp einhvern tíma á þessum tíma en mér finnst það ennþá vera alveg neðst. Ég á ekki fyrstu skoðun fyrr en eftir nokkra daga því það var svo löng bið á Barónstígnum.
P.s. Stundum finnst mér eins og hjartað mitt sé að slá í leginu… afhverju er það? Ég vona að þú sjáir þér fært að svara þessum spurningum, þó þær séu kannski svolítið skrítnar:)

Svar:
Líklegasta skýringin á þessum stóra maga er loftmyndun í þörmum og aukin fyrirferð þeirra þegar legið ýtir þeim upp fyrir sig og til hliðar. Einnig gæti verið að þú værir komin lengra á leið en þú telur eða að um fleira en eitt fóstur sé að ræða. Hjartslátturinn í leginu gæti verið út frá auknu blóðflæði til legsins þannig að æðasláttur er meira afgerandi í kringum legið og finnst oft sem hjartsláttur í eða við það.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir