Kynlíf á meðgöngu?

Spurning:
Ég er með eina spurningu sem er um kynlíf á meðgöngu. Þannig er mál með vexti að ég er komin 25 vikur á leið og allt gengur mjög vel. Í gær ætluðum ég og maðurinn minn að fara að hafa samfarir og hann fór með fingurinn upp í leggöng mín, á svipaðan stað og G-bletturinn er!!! Ekkert að það sé e-h að því og þetta meiddi mig ekkert eða neitt svoleiðis, en svo fann ég barnið sparka og hann fann það líka þrýsta á puttann á sér. Honum brá mjög og prufaði aftur og þetta gerðist aftur. Honum fannst hann koma næstum því við barnið. Okkur fannst þetta mjög óhuggulegt og hættum samstundis öllum plönum um kynlíf !!! Mig langar bara að spyrja hvort þetta sé eðlilegt?

Takk kærlega fyrir frábæra síðu,
Ein stressuð!!!

Svar:
Barn í móðurkviði finnur vel fyrir utanaðkomandi snertingu og hafi maðurinn þinn komið við leghálsinn, í stað G-blettsins, gæti barnið hafa verið að ,,svara" snertingunni. Þótt þú finnir ekki til þegar maðurinn þinn snertir leghálsinn er ekki sniðugt að gera mikið af því að nudda hann þar sem það getur orsakað samdrætti. Hins vegar er, undir venjulegum kringumstæðum, allt í lagi að stunda kynlíf á meðgöngunni.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir