Spurning:
Hvaða áhrif getur langvarandi og regluleg notkun Nikotin tyggjós haft? Getur það til dæmis haft áhrif á svefn (svefnleysi), blóðþrýsting eða eitthvað annað?
Svar:
Aukaverkanir (eiturverkanir) af nikótíni og nikótínlyfjum eru margvíslegar t.d. slappleiki, höfuðverkur, svimi, meltingaróþægindi, flensulík einkenni, hjartsláttarónot, svefnleysi, vöðvaþrautir, brjóstverkur, breyting á blóðþrýstingi, kvíði, viðkvæmni við ertingu, svefnhöfgi erting í hálsi (nikótíntyggjó) og fleira.
Nikótín er mjög eitrað efni og í bráðum nikótíneitrunum getur fólk dáið á fáeinum mínútum vegna öndunarstopps sem verður vegna lömunar vöðva sem sjá um öndun. Banvænn skammtur af nikótíni fyrir fullorðna er 30-60 mg.
Nikótíninnihald Nicorette og Nicotinell tyggjósins er 2-4 mg í hverju stykki, svo sáralítil hætta er á að taka banvænan skammt.
Ef vandamál koma upp varðandi notkun á nikótínlyfjum er ráðlagt að tala við lækni eða lyfjafræðing í apótekinu.
Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur