Lifrarbólga B og C

Spurning:

70 ára – Karl

Góðan dag.

Ég vildi að þessu sinni senda fyrirspurn, sem alls ekki varðar mig sjálfan, heldur það sem sumt af yngri kynslóðinni, svokallaðir sprautufíklar kalla inn á sig, t.d. B og C lifrarbólgu. Þar sem ég er alls ófróður um þessa sjúkdóma, langar mig að spyrja, hvort þeir séu á einhvern hátt banvænir.  Einnig hef ég lesið, að sumt fólk hafi greinzt bæði með B og C lifrarbólgu.  Nú vil ég einnig spyrja, hver er munurinn á þessum sjúkdómum, t.d. er B bólgan jafnvel hættulegri en C og hver er skilgreiningin á þessu tvennu, sem mætti í dag nefnast alheimsböl.

Svar:

Ég vildi að þessu sinni senda fyrirspurn, sem alls ekki varðar mig sjálfan, heldur það sem sumt af yngri kynslóðinni, svokallaðir sprautufíklar kalla inn á sig, t.d. B og C lifrarbólgu. Þar sem ég er alls ófróður um þessa sjúkdóma, langar mig að spyrja, hvort þeir séu á einhvern hátt banvænir. Sjúkdómarnir sem eru veirusýkingar eru oftast nær ekki banvænir.  Einnig hef ég lesið, að sumt fólk hafi greinzt bæði með B og C lifrarbólgu. Það er alveg hárrétt. Veirusýkingin smitast á milli manna annað hvort með nánum kynnum (á borð við samræði) ellegar með því að fólk notar fíkniefni í æð. Við þá iðju getur smitefni komist frá einum einstaklingi yfir í annan. Smit milli einstaklinga sem nota fíkniefni á við um báðar veirurnar. Hins vegar er lifrarbólga B mun meira smitandi en lifrarbólguveira C sem smitast síður við samræði veira af B gerð. Nú vil ég einnig spyrja, hver er munurinn á þessum sjúkdómum, t.d. er B bólgan jafnvel hættulegri en C og hver er skilgreiningin á þessu tvennu, sem mætti í dag nefnast alheimsböl.Munurinn á lifrarbólguveiru B og C er talsverður. B-veiran hefur DNA-kjarnsýrur en C-veiran RNA-kjarnsýrur. Flestir sem að fá lifrarbólgu B á vesturlöndum fá hana á fullorðinsárum og geta unnið bug á henni með ónæmiskerfi sínu. Þar af leiðir eru hlutfallslega fáir á vesturlöndum með króníska lifrarbólgu vegna B-veirunnar. Þeir sem eru frá austurlöndum fjær eru útsettir fyrir veirunni á ungaaldri og eiga þess vegna erfiðara með að uppræta B-veiruna úr blóði sínu. Þess vegna eru margir frá þessum heimshluta með króníska sýkingu í blóðinu. Um lifrarbólgu C gildir allt annað. Menn smitast á unglings og fullorðins árum og meirihluti smitaðra fær króníska sýkingu (70 til 80 %). Þeir aðilar sem fá króníska sýkingu óháð því hvort hún er af völdum B eða C geta fengið skorpulifur eftir 20 til 30 ár. Þeir sem að fá skorpulifur geta fengið krabbamein í lifur einkum þeir sem eru með B-veiruna. Þess ber þó að geta að hlutfaallslega fáir þeirra sem fá króníska sýkingu fara í skorpulifur (10 til 15 %). Þeir sem að drekka mikið áfengi og eða eru sýktir með HIV-veiru og hafa lifrarbólgu af völdum B eða C eru í mun meiri hættu á að fá skorpulifur og eða krabbamein í lifur.

Það eru til lyf til að meðhöndla báðar veirusýkingarnar sem eru nokkuð áhrifaríkar en tryggja ekki öllum lækningu. Gegn lifrarbólguveiru B er til afar gott bóluefni sem ver fólk fyrir sýkingunni en ekkert slíkt er til til að verja fólk fyrir lifrarbólguveiru C.

Már Kristjánsson, smitsjúkdómasérfræðingur.