Meiðsli á hné?

Spurning:
Halló
Ég meiddi mig í hnéinu og fór til heimilislæknis míns og hann taldi að ég væri með rifinn liðþófa og sagði að hann vildi ekki gera neitt í málinu heldur á ég að hvíla löppina í 3 mánuði, miðað við öll læknavísindin í dag er þetta besti kosturinn að hlífa löppinni í 3 mánuði, er ekki neitt annað hægt að gera því ég er 24 ára og svitna við þá tilhugsun að vera með ónýtt hné það sem eftir er og miðað við grein ykkar á vefnum finnst mér eins og aðrar leiðir séu til en að liggja með löppina upp í loft í 3 mánuði.
Takk fyrir

Svar:

Sæl.
Ég mundi ráðleggja þér að leita til bæklunarsérfræðings og láta hann meta hvort ástæða sé til að hreinsa liðþófann eða ekki, það er þá gert í gegnum speglun og er ekki mikil aðgerð. Ef hnéð er mjög bólgið er rétt að hlífa því við álagi, en best er að hreyfa sig hæfilega og innan sársaukamarka því ekki er heldur gott að vöðvar umhverfis liðinn rýrni.

Kveðja,

Sigþrúður Jónsdóttir,
sjúkraþjálfari í Styrk