Meðganga: fyrsta skoðun?

Spurning:

Ég er 33 ára, komin á 7. viku með mitt annað barn, eldra barnið er 7 ára. Síðasta meðganga gekk vel en fæðingin var erfið. Hvenær er rétt að láta vita af sér og skrá sig inn í mæðraskoðun? Síðast talaði ég mjög snemma við lækni en hann lét mig ekki fara í skoðun fyrr en ég var komin um það bil 15-16 vikur á leið.

Á ég að bíða þangað til, ef allt gengur vel og er eðlilegt?

Svar:

Sæl vertu.

Yfirleitt er ekki þörf á mæðraskoðun fyrr en við tólftu til fjórtándu viku meðgöngu. Nú eru orðnir margir möguleikar í stöðunni hvað varðar mæðrskoðun bæði stað og fyrirkomulag. Þú ættir endilega að kynna þér það á heilsugæslustöðinni þinni. Þótt fyrsta fæðing hafi gengið illa þarf það ekki að þýða að næsta fæðing gangi líka illa. Þar spilar svo margt inn í eins og líkamsástand og andleg og félagsleg líðan. Trúðu því bara að þetta gangi vel, því hugurinn ber mann hálfa leið.

Kær kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir