Meðganga – gyllinæð

Spurning:

Góðan dag.

Ég er ófrísk, komin 4 mánuði á leið, og hef átt í
vandræðum vegna sársauka við hægðir. Þar sem ég las að það væri algengt á meðgöngu hafði ég ekki miklar áhyggjur jafnvel þegar blæddi aðeins, heldur reyndi bara að borða trefjar (sveskjur, döðlur, þurrkaðar apríkósur o.fl.) og drekka vatn (1-2 lítra á dag) sem hefur gert hægðirnar mýkri þannig að sársaukinn er að mestu horfinn og ekki hefur blætt í nokkurn tíma.
Núna hef ég hins vegar orðið var við að myndast hefur einhverskonar
húðflipi sem vex út úr endaþarmsopinu og mér virðist hann stækka fremur hratt. Á leit minni um erlendar heilsuheimasíður hef ég rekist á fyrirbæri sem er kallað „anal fissure“ og getur leitt til eitthvers sem nefnist „sentinel pile“ og nú vil ég gjarnan vita hvort þetta er það sem amar að mér og ef svo er hvað sé til ráða. En ef ekki, hvað þetta geti verið.

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Af lýsingunni að dæma er hér um gyllinæð að ræða hjá þér. Það var því gott að þú skyldir koma lagi á hægðirnar því harðar hægðir gera illt verra þegar gyllinæð er annars vegar. Gyllinæð er veikleiki í bláæðaveggjum við endaþarm og þá bungar æðin út og myndar eins konar flipa (eins og þú lýsir). Það eru aðallega tveir hlutir sem gera konur á meðgöngu útsettari fyrir gyllinæð en aðra en það eru hormónaáhrif sem slaka á sléttum vöðvum, þ.m.t. í æðaveggjum og aukinn þrýstingur á grindarbotninn sem þrýstir á æðarnar við endaþarminn. Besta ráðið við gyllinæð er að halda hægðum mjúkum, eins og þú ert að gera, leggja kaldan bakstur við gyllinæðina smástund daglega, taka þungann af botninum nokkrum sinnum á dag með því að
liggja á hnjánum í svona 5 – 10 mínútur í senn og svo eru til
endaþarmsstílar og krem sem draga úr bólgu og þrota í gyllinæðinni og hægt er að nálgast lyfseðilslaust í apótekunum. Talaðu líka um þetta við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni, kannski á hún einnig eitthvað gott ráð í pokahorninu.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir