Meðganga – lystarleysi og ógleði

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er með eina spurningu sem brennur á mér. Þannig er að ég er komin rúmar 8 vikur á leið og hef hríðhorast síðustu tvær vikurnar, búin að missa tæp 3 kíló. Matarlystin er alveg í lágmarki vegna flökurleika, ég finn enga löngun til að elda mér mat og get ekki séð að þetta gangi svona til lengdar.

Læknirinn minn sagði að þetta væri ofureðlilegt og ég þyrfti ekkert að óttast. Er það virkilega rétt? Ég bý nefnilega í Frakklandi og þar er það mikið mál að konur séu sem grennstar. Auðvitað vil ég ekki fitna mikið, en þrekið er orðið lítið og vonleysislegar hugsanir farnar að gera vart við sig. Hversu mikið má ég grennast þar til stefnir í óefni?

Kveðja,

Ein í Frakklandi

Svar:

Sæl.

Þú ert illa haldin sýnist mér og ég myndi nú telja að læknirinn geri of lítið úr vanlíðan þinni. Þótt vitaskuld sé eðlilegt að þjást af vægri ógleði og stöku uppköstum á meðgöngu, er ekki eðlilegt að léttast mikið því líkaminn byrjar strax að safna í sig vökvaforða í aukið blóðmagn og því byrja konur fljótlega að þyngjast. Þegar kona nærist lítið, drekkur lítinn vökva og kastar oft upp, fer að ganga á vöðvamassann til að halda orku fyrir heilann og þá ertu komin í slæm mál. Fyrsta skrefið fyrir þig er að ná vökvajafnvægi. Hafðu alltaf við hendina eitthvað kalt og svalandi til að drekka. Flestum konum með meðgönguógleði finnst vont að matur og drykkur sé bragðmikill, svo þú skalt finna eitthvað sem höfðar til þín eins og léttkolsýrða ávaxtadrykki, þynntan eplasafa, orkudrykki án koffíns eða sítrónute. Það gerir ekkert til þótt drykkirnir innihaldi sykur – þú þarft orku. Drekktu ekki mikið í einu, bara sopa af og til, þá verður þér síður óglatt. Forðastu kaffi, te, kóladrykki og feita mjólkurdrykki.
Eins skaltu forðast að borða mikið í einu. Feitur, kryddaður og brasaður matur veldur oft ógleði og uppköstum. Leggðu heldur áherslu á léttmeti eins og bakaðan kjúkling eða fisk, hrísgrjón, pasta, brauð, salöt, grænmeti og ávexti. Það gefst mörgum konum vel að drekka engan vökva í klukkutíma fyrir og eftir máltíðir. Drekka þess betur á milli máltíða. Ef einhver annar getur eldað án þess að þú sért viðstödd er það vitaskuld best. Að öðrum kosti gætir þú eldað mikið þegar þér líður sæmilega vel en látið eldamennskuna eiga sig á slæmu tímunum og þá borðað kaldan mat, grænmeti og
ávexti. Mörgum konum finnst líka gott að vera sínartandi (á beit) og halda þannig niðri ógleðinni. Ógleðin verður nefnilega oft verri ef maður er svangur. Oft hafa konur eitthvað að narta í við hliðina á rúminu sínu, t.d. tekex eða epli, og fá sér smá nart áður en þær fara á fætur.
Það getur verið gott að fara aðeins út að ganga á hverjum degi í fersku lofti, en forðastu allar snöggar hreyfingar, þær geta aukið ógleðina. Þú verður líka að gæta þess að fá næga hvíld og góðan nætursvefn.
Það náttúruefni sem best dregur úr ógleði er engifer, en mikið af honum getur valdið fósturskaða á fyrstu þremur mánuðunum svo það skal farið varlega í að nota hann. Dauft te úr ferskum engifer einu sinni til tvisvar á dag er þó talið í lagi.
Ef ekkert af þessu dugar þá er talið óhætt að nota ákveðin sjóveikilyf til að minnka ógleðina. Þau eru Postafen og Koffínátín og fást án lyfseðils í lyfjabúðunum (a.m.k. hér á Íslandi).
Ef þú ferð ekki skánandi mjög fljótlega ættirðu að tala við lækninn aftur, eða leita álits annars læknis.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir