Spurning:
Sæl.
Ég er komin 12 vikur á leið og er með eina spurningu í sambandi við þvaglát. Ég hef allan tímann þurft að pissa mjög oft og mikið, sérstaklega á nóttunni. Mér finnst þetta nú vera eitthvað í rénun núna, en þó pissa ég ennþá mjög oft og mikið á nóttunni. Ég hef verið að reyna að drekka ekki neitt eftir kl. 7 á kvöldin til að minnka þetta, en þrátt fyrir það þarf ég alltaf að fara á klósettið svona tvisvar um nóttina og síðan aftur í morgunsárið. Það sem ég vildi fá að vita er hvort þetta er alveg eðlilegt, því ég er að pissa mjög miklu í hvert skipti, miklu meira en ég er í rauninni búin að drekka, og síðan vakna ég upp á morgnana alveg gjörsamlega uppþornuð.
Einnig kemur það stundum fyrir eftir að ég er búin að drekka mjög mikið að ég þarf að fara á klósettið á 5-10 mínútna fresti og pissa þá mjög miklu, miklu meira en ég hélt að væri mögulegt fyrir nýrun að skilja út á ekki lengri tíma.
Kærar þakkir.
Ein sípissandi.
Svar:
Sæl.
Það er eðlilegt að þurfa að pissa oftar í byrjun meðgöngu en maður er vanur að gera. Það kemur bæði til vegna togs og þrengsla við þvagblöðruna en einnig vegna breytinga á efnaskiptum og aukningu vökvamagns í blóði. Ef þér finnst hins vegar að þú pissir meira en góðu hófi gegnir og sért að þorna upp, ættir þú að tala við ljósmóður og lækni í mæðraverndinni til að athuga hvort öll efnaskipti séu innan eðlilegra marka.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir