Meðganga – sykurþolspróf

Spurning:

Ég hef átt við sykurvandamál að stríða síðan ég varð ólétt. Í fyrstu mæðraskoðuninni mældust 2 plúsar í þvaginu og þannig var það næstu 3 skipti. Þá var ég send í sykurþolspróf, en samkvæmt því prófi er ég ekki með sykursýki eða meðgöngusykursýki. Í síðustu tvö skipti sem ég hef verið mæld, hafa plúsarnir verið 3 í þvagprufunni og veit ljósmóðirin ekki alveg hvað hún á að gera við mig.

Eru þetta einhverjar hormónabreytingar í líkamanum hjá mér eða hvað?

Kveðja.

Svar:

Kæra verðandi móðir.

Það er hárrétt að alltaf þegar sykur er í þvagi á meðgöngu ber að hafa sykursýki/meðgöngusykursýki í huga, þegar búið er að útiloka atriði eins og nýafstaðna sykurríka máltíð. Það er ekki óalgengt að sykur leki með þvagi en ef það endurtekur sig í sífellu getur þurft að endurtaka sykurþolsprófið, einkum ef plúsunum fjölgar. Þetta ætlar ljósmóðirin þín örugglega að gera, eða að hún hefur haft samband við sérfræðing sem hefur ráðlagt henni annað.

Bestu kveðjur og gangi þér vel.
Arnar Hauksson dr. med.