Spurning:
Góðan dag.
Ég er nýbúin að missa bróður minn, sem var mér mjög náinn og ég get ekki viðurkennt að hann sé farinn frá mér. Mamma lést fyrir meira en 10 árum og ég hef ekki náð mér almennilega eftir það. Er í glasafrjóvgunarmeðferð núna og ég er alveg að gefast upp á allri þeirri pressu sem fylgir þessu öllu. Mér líður illa en er þokkalega góð í að fela tilfinningar mínar þannig að enginn tekur eftir neinu og allir tala um hvað ég sé sterk, en í raun og veru er ég það alls ekki, því inní mér græt ég sárt og vill bara vera ein og hugsa um hvað ég er óheppin og hvað lífið getur verið miskunnarlaust.
Hvað á ég að gera til að bæði létta á mér og öðlast smá innri ró?
Bestu kveðjur og þakkir.
Svar:
Blessuð og sæl.
Ég sé á því sem þú skrifar að þér líður mjög illa innra með þér þó að þú viljir ekki láta á því bera útávið eins og þú segir. Nú veit ég ekki hvar þú býrð á landinu, en ég myndi ráðleggja þér að finna einhvern góðan aðila til þess að ræða við um þessa vanlíðan þína.
Það er óhollt að byrgja svona innra með sjálfri sér. Auðveldast er fyrir þig að snúa þér til prestsins þar sem þú átt heima og fá að spjalla við hann.
Ef þér finnst það erfitt þá getur þú líka snúið þér beint til prestanna sem starfa á Landspítalanum í Reykjavík. Þeir eru sérfræðingar í einmitt svona málum og geta örugglega leiðbeint þér. Á Landspítalanum starfa þrjár konur sem prestar ef þér finnst betra að ræða málin við konu en karl. Þær heita Guðlaug Helga, Ingileif og Rósa. Allar hafa þær mikla reynslu, það er gott að spjalla við þær og þær geta líka hjálpað þér áfram ef svo vill verkast að vinna frekar í þínum málum.
Með kveðju, Þórhallur.