Miklir verkir í vöðvum og taugum.

Góðan daginn.
Ég er 60 karlmaður og nú um nokkurt skeið þá hef ég orðið var við er ég reyni á mig þá verð ég mjög verkjaður við alla áreynslu í vöðvum og taugum. Ég hef verið hjá Lækni vegna B12 skorts og sprautað mig í meira enn ár eftir að það uppgötvaðist sá skortur. Enn þetta er bara ekki eðlilegt finnst mér. Ég fór t.d að þrífa bílinn minn og var alveg frá í skrokknum eftir það, varð eins og vel stirt gamalmenni. Átti erfitt með allar hreyfingar, stirður eins og spýtu kall og verkjaði um allan skrokkinn. Það að ganga eða gera bara hvað sem er var erfitt og svefninn varð algjört „HELL“ Í stuttu máli þá hef ég bara fengið þá greiningu hjá læknum sem ég hef leitað til “ hreifðu þig feita barn“. Enn þegar þú reynir og árangurinn er alltaf sá sami þá er maður alveg við það að gefast upp og bara hætta. Ég hef bara ekki verið sá einstaklingur. Nú upplifun er sú að mér líður best í hvíld og slökun. Það gengur ekki að borga skuldir skilst mér.

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Leitt að heyra að þú þolir lítið að hreyfa þig án þess að verða ómögulegur í skrokknum. Það er örugglega erfitt fyrir þig að feta þessa línu að hreyfa þig ekki of mikið og ofgera þér, en hreyfa þig samt eitthvað svo þú stirðnir ekki.

Nú veit ég ekki hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á þér en ég myndi vilja ráðleggja þér að fara enn eina ferðina til læknis og biðja um að láta athuga hvort einhverjir gigtarsjúkdómar séu að hrjá þig.

Af því þú ert þetta slæmur í skrokknum finnst mér að það þurfi að útiloka gigt.

Þú verður greinilega að fara varlega í hreyfingu en þú gert ýmislegt til að lina stirðleikann og verkina svo sem fara reglulega í sundlaugarnar í heita pottinn og  gufuna.

Þó þú sért svona mikið stirður verður þú samt að hreyfa þig eitthvað og þá er betra að fara í stuttar gönguferðir en langar, reyna frekar að fara oftar.

Góðar teygjuæfingar gætu líka hjálpað þér að líða betur.

Gangi þér vel, Svanbjörg Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur