Munur á Ritalín og Concerta?

Spurning:
Ég er með spurningar um hvort Conserta og Ritalín séu ekki í raun mjög svipuð í verkun? Er það ekki sýnt ef barn tekur rítalín í 10 daga og lystin hverfur og eins svefninn að Rítalín sé rauninni ekki er virka fyrir þetta barn?

Svar:
Ritalin og Concerta innihalda bæði sama virka efnið, metýlfenídat. Ritalin inniheldur 5 mg af því og Concerta 18 eða 36 mg. Verkun lyfjanna er því í raun sú sama. Munurinn á þeim felst í því að í Concerta er virka efninu þannig komið fyrir að það losnar hægt og rólega úr töflunni þannig að verkun helst allan daginn. Með því er hægt að komast af með eina lyfjagjöf á dag, sem er oft til mikils hægðarauka. Lystarleysi og svefnleysi eru mjög algengar aukaverkanir af þessum lyfjum. Möguleiki er að úr þeim dragi við áframhaldandi notkun og eins ef skammtur er minnkaður. Þó svo að vart verði við þessar aukaverkanir getur lyfið verið að virka við ofvirkni eða athyglisbresti, sem ég geri ráð fyrir að hafi verið ástæða fyrir lyfjagjöfinni.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur