Nokkrar óléttuspurningar

Spurning:
Góðan daginn.
Ég er hér með nokkrar spurningar. Ég komst að því að ég er ólétt á mánudaginn og tók þá bara prófið sjálf og er alveg himinlifandi yfir þessu, en ég er að spá hvort ég þurfi að fara til læknis eða á ég að bíða fram á fyrstu mæðraskoðun? Eru þessi próf ekki alveg örugg? Hvenær fer maður svo að finna fyrir þessu öllu saman, ógleði og öllu sem fylgir?
Ein voða ánægð:)

Svar:

Ef þú ert hraust og ekkert amar að þér er þér óhætt að bíða með læknisskoðun fram að fyrstu mæðraskoðun. Sértu hins vegar með einhverja undirliggjandi sjúkdóma ættir þú að láta lækni kíkja á þig við 6-10 vikna meðgöngu. Þungunarprófin eru nokkuð örugg svo ef þú hefur farið fram yfir blæðingatímann þinn og þungunarprófið er jákvætt er nokkuð öruggt að þú ert barnshafandi. Það er mjög mismunandi hvort og hvenær konur fara að finna fyrir ógleði – hún kemur oft um 6-8 vikna meðgöngu og nær yfirleitt hámarki um 10-12 vikna meðgöngu. Hins vegar finna margar konur lítið fyrir meðgöngunni fyrr en krílið fer að hreyfa sig og síga í.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir