Óþol fyrir grænmeti og ávöxtum

Spurning:

Þegar verið er að fjalla um hollt mataræði er alltaf talað um mikilvægi þess að borða nóg af ávöxtum og grænmeti og nauðsynlegt sé að borða kjarngóðan morgunmat – helst múslí eða þess háttar mat. Hefur aldrei hvarlað að ykkur næringarsérfræðingum að sumt fólk er með óþol fyrir flest öllum ávöxtum og grænmeti og sumir hafa kannski enga matarlyst fyrr en kemur undir hádegi. Það væri gaman að heyra ráðleggingar um hollt mataræði sem taka mið af þessu.

Svar:

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á það að neysla ávaxta og gænmetis er góð fyrir heilsuna. Þess vegna reyna næringarfræðingar að hvetja fólk til neyslu á þessum fæðutegundum. Auðvitað getur það ekki talist hollt að úða í sig ávöxtum eða grænmeti ef einhver óþægindi stafa af neyslunni. Þá er um að gera að prófa sig áfram og velja þær tegundir sem fara betur í viðkomandi.

Flest grænmeti inniheldur talsvert magn af trefjum. Þeir sem áður hafa lifað á mjög trefjasnauðu fæði gætu fundið fyrir óþægindum ef mataræðinu er breytt mjög snögglega yfir í trefjaríkt fæði. Best er að byrja rólega og auka svo neyslu ávaxta og grænmetis smátt og smátt. Sama er að segja um annað grófmeti t.d. gróft korn. Munið síðan að aukinni trefjaneyslu fylgir aukin þörf fyrir vatn! Drekka vel. Það tekur nokkra daga að venjast trefjaneyslunni þannig að þið verðið að láta ykkur hafa það að finna fyrir smá óþægindum í maga og loftgangi (fara bara afsíðis og leysa vind!). En þetta lagast og líkaminn getur farið að njóta hollrar fæðu og þið notið góðs af því.

Morgunmaturinn er mikilvægur vegna þess að hann veitir okkur orku sem við notum yfir daginn og er yfirleitt mjög bætiefnaríkur. Ef morgunmat er sleppt þá leiðist fólk oft út í það að hafa svo mikið að gera t.d. í vinnu að það gleymir að borða og grípur svo einhvern skyndibita þegar það er orðið sársvangt. Ráðleggingar mínar til fólks sem er mjög lystarlaust á morgnana er sú að taka með sér kjarngóðan morgunmat í vinnuna og borða strax og það hefur lyst. Góð samloka, jógúrt, skyr, ávextir eða morgunkorn er auðvelt að hafa með sér.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur