Spurning:
Ég hef verið með barn á brjósti og tek pilluna. Við notuðum alltaf smokk fyrst en eftir að ég byrjaði á p-pillunni hættum við að nota smokkinn. Ég hætti með barnið á brjósti fyrir 2 vikum, hann er 3 1/2 mánaða, við höfum ekki haft samfarir eftir það, en ég er ekki byrjuð á túr.
Þegar ég hætti að mjólka mig, byrjaði ég að taka Parlodel, en núna eru að koma slæmir verkir í brjóstin. Hvað á ég að gera?
Takk fyrir.
Svar:
Sæl.
Það tekur nú hormónakerfið dálítinn tíma að aðlagast breytingum á brjóstagjöf og ná því hlutfalli estrogens og progesterons sem er nauðsynlegt til að tíðahringurinn komist í réttan takt. Streita getur tafið fyrir blæðingum, sem og mikil líkamsrækt. Vertu róleg enn um sinn en gættu vel að getnaðarvörnunum því egglosið (og þar með frjósemin) kemur á undan blæðingunum. Hvað varðar Parlodelið, þá er það óttalegt eitur og hæpið að það hafi nokkur áhrif til minnkunar mjólkurmyndunar eftir að hún er komin vel af stað. Það er jafn góður kostur að vera með góðan stuðning um brjóstin og forðast að örva þau nema í neyðartilvikum. Aukinn þrýstingur í þeim og lítil örvun dregur úr mjólkurmynduninni álíka hratt og Parlodelið. Verkirnir í brjóstunum gætu stafað af stíflum sem koma þegar brjóstin eru ekki losuð. Þú verður að losa mjólk úr brjóstunum ef þú hættir snögglega að gefa brjóst, því mjólkin heldur áfram að myndast dágóðan tíma eftir að þú hættir að gefa. Leitaðu til brjóstagjafarráðgjafa Landspítala (ef þú býrð í Reykjavík eða til ljósmæðra á næstu fæðingardeild ef þú býrð úti á landi)til að hjálpa þér að losa úr brjóstunum. Ef þú hefur ekki aðgang að ljósmóður skaltu handmjólka þig eða nota pumpu. Ef í brjóstunum eru þrimlar skaltu setja á þá heitan bakstur og nudda mjúklega í áttina að geirvörtunni meðan þú mjólkar þig. Ef þú færð hita eða roða á brjóstið verður þú að fara til ljósmóður eða læknis og fá sýklalyf. ÞÚ MÁTT ALLS EKKI LÁTA BARNIÐ DREKKA MJÓLKINA ÞVÍ PARLODEL SKYLST ÚT Í HANA OG ER BARNINU MJÖG EITRAÐ. Þegar þér er batnað skaltu draga úr mjöltunum og setja góðan stuðning við brjóstin meðan þau draga úr framleiðslunni.
Gangi þér vel.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir