Óreglulegar blæðingar en er ekki ólétt

Spurning:

Kæri Arnar.

Ég hætti á pillunni í september í von um að verða ófrísk. Ég var með óreglulegar blæðingar fyrsta einn og hálfa mánuðinn (3 sinnum á þeim tíma), en eftir það var allt eðlilegt í smá tíma. Núna hef ég svo ekkert verið með blæðingar síðan um miðjan janúar. Ég er búin að gera óléttupróf þrisvar, en það er alltaf neikvætt. Neðri maginn á mér er orðinn frekar stór (þrútinn og harður), er það eðlilegt þegar svona langt stopp hefur orðið? Og af hverju er það? Getur verið að ég sé ólétt þrátt fyrir neikvæðar niðurstöður? Hvað er hægt að gera í þessu?

Kveðja.

Svar:

Þungunarpróf eru það ábyggileg í dag að þú ert varla þunguð þó rétt sé að endurtaka það. Hins vegar bendir saga þín til að rétt væri að þú ræddir við lækni þinn um þungunarlöngun. Uppþembdur kviður er ekki vegna þungunar í þetta sinn heldur annarra vandamála sem þarf að leysa. Að öllum líkindum þarft þú aðstoð við að verða þunguð.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Arnar Hauksson, dr.med.