Orlistat (Xenical) – megrunarlyf með virkni

Spurning:

Sæll Ólafur.

Þannig er að ég hef fengið Xenical hjá lækni til að grennast. Mig langar að vita hvað ég þarf að forðast meðan ég tek inn pillurnar. Læknirinn sagði „alla fitu“. Þýðir það að ég megi ekki neyta neinna dýraafurða því óneitanlega er alltaf einhver fita í þeim. Ég yrði þakklát fyrir leiðsögn svo ég lendi ekki í leiðinlegum aukaverkunum af pillunum!

Með kveðju,

Svar:

Komdu sæl.

Orlistat (Xenical) er líklegast það lyf sem oftast er ávísað vegna offitu í dag. Orlistat kemur í veg fyrir eðlilega meltingu fæðu með því að hindra starfsemi hvata sem þörf er á til að melta fitu. Afleiðingin er að um þriðjungur fitu úr fæðunni skilst úr líkamanum án þess að nýtast sem orkugjafi.

Staðreyndir: Veltum fyrir okkur eftirfarandi spurningu: Hvaða áhrif skyldi það hafa á líkamsþyngd ef 30% neyttrar fitu er eytt úr líkamanum án þess að hún nýtist sem orkugjafi?

Tökum Bjarna sem dæmi. Bjarni er í megrun og fer eftir neyslukerfi sem leyfir 1.500 hitaeiningar á dag. Tuttugu prósent hitaeininganna koma úr fitu en það jafngildir 300 hitaeiningum. Þrjátíu prósent af 300 hitaeiningum eru 90 hitaeiningar. Þetta merkir að vegna áhrifa lyfjatökunnar eyðast úr líkama Bjarna 90 hitaeiningar sem ella hefðu ekki eyðst. Þegar haft er í huga að hálft kíló af fituvef jafngildir 4.000 hitaeiningum er augljóst að lyfið hefur mjög svo óveruleg áhrif til megrunar.

Misnotkun á lyfjum/efnum, sem losa líkamann við fitu án þess að hún nái að nýtast líkamanum á eðlilegan hátt, getur leitt til hættulegs líkamsástands. Ástæða þess er tap á fituvítamínum og vökva úr líkama en ein aukaverkana, sem fylgir ofneyslu slíkra lyfja/efna, er niðurgangur.

Þó skal haft í huga að lyf eins og orlistat getur hjálpað til við fitutap. Og ef það er notað skynsamlega er ólíklegt að neysla þess framkalli alvarlegar aukaverkanir.

Niðurstöður rannsókna hafa einmitt leitt í ljós að ef mikið feitum einstaklingum er skipt í tvo hópa þar sem þátttakendur annars hópsins neyta orlistat (120 mg á dag) en hins hópsins lyfleysu þá missa þeir sem neyta lyfsins um 3 til 5 kg meira á ári og þá að því gefnu að mataræði beggja hópanna sé sambærilegt.

Það á eftir að koma í ljós hvort að lyf eins og orlistat muni nýtast mörgum feitum einstaklingum vel í baráttunni gegn aukakílóunum. Eitt er víst að ef einstaklingur ákveður að neyta lyfsins verður hann að vera meðvitaður um að lyfið er einungis „hjálpartæki“ sem getur aðstoðað til við að flýta fyrir þyngdartapi og að ekki verði hjá komist að breyta mataræðinu til betri vegar ef varanlegur árangur á að nást.

Að lokum. Þar sem mikilvægt er að huga að fituneyslunni (en vegna lyfsins leiðir mikil fituneysla til óþæginda í meltingarvegi) tel ég mikilvægt að þú leitir þér næringarráðgjafar (hjá næringarfræðingi/næringarráðgjafa). Því auðvitað snýst þetta ekki um að útiloka „alla fitu” (eins og þú segir að læknir þinn hafi sagt þér) heldur neyta hennar í hófi!

Með kærri kveðju,

Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur