Perlutex og mögulegur getnaður?

Spurning:
Góðan daginn! Mig langaði að spyrja þig í sambandi við lyfið Perlutex. Kvensjúkdómalæknirinn minn sagði mér að fara á þetta lyf í þrjá mánuði (14 daga og hvíld 14 daga) til að rétta tíðahringinn. Ég og unnustinn minn erum að reyna að eignast barn og það sem mig langar alveg rosalega að vita er hvort ég geti orðið ófrísk á meðan ég er á þessu lyfi? Ætti ég að reyna á egglosdaginn eða eru mjög litlar líkur á að ég verði ófrísk meðan ég er að taka þetta inn? Vonandi geti þið svarað mér sem fyrst, kær kveðja.

Svar:
Ekki þori ég að fullyrða um það hversu miklar líkur eru á að þú verðir ófrísk meðan þú tekur Perlutex. Hins vegar er varað við því að taka lyfið á meðgöngu, þar sem ekki er útilokað að það geti haft óæskileg áhrif á fóstur. Verði kona ófrísk meðan hún er að taka lyfið ber að hætta tökunni strax.
Ég mæli því ekki með því að þú reynir að verða ófrísk fyrr en eftir að þú hefur hætt töku Perlutex.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur