Ráð til að auka frjósemi

Spurning:


30 ára – kona

Ein fáróð hèrna,
er ad reyna að verða òlètt en bý med einum sem finnst vínsmökkun skemmtileg og vill að èg deili reynslunni með sèr, þà er èg bara að tala um smökkun stundum en ekkert fylleri, bara róleg kvöldstund. Á ég ad sleppa víni algerlega meðan við erum ad reyna þetta eða getur eitthvað gerst þò eg sè að prófa víntegundir svona stundum:)? Er annars ekki mikid fyrir vín almennt, en finnst àgætt að smakka og finna mun-gera samanburð.
Fyrirfram þakkir um svar og hròs fyrir skemmtilegan vef hjà ykkur;)

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Ég ætla að láta svar Dagnýju Zoega, ljósmóður sem svaraði svipaðri spurningu á sínum tíma svara þínum vangaveltum, en þar segir m.a.;

"Besta ráðið til að verða ólétt er að leggja ekki of mikla áherslu á það. Streita hefur nefnilega slæm áhrif á frjósemi. Reykingar, kaffidrykkja og áfengi hafa líka slæm áhrif. Einnig getur mikil líkamsrækt og strangir megrunarkúrar dregið úr frjósemi. Svo er heldur ekki gott að vera að hafa samfarir í tíma og ótíma því þeim mun oftar sem maðurinn hefur sáðlát þeim mun færri sæðisfrumur eru í sæðinu og því minni líkur á að þær eigi möguleika á að frjóvga eggið. Öruggast er að hafa samfarir um miðjan tíðahring því egglosið verður 14 dögum áður en blæðingar hefjast og í 28 daga tíðahring er það 14 dögum eftir að síðustu blæðingar hófust.
Þú ert vonandi byrjuð að taka fólínsýru. Fólínsýra minnkar líkurnar á klofnum hrygg hjá fóstrinu og hefur góð áhrif á blóðmyndun. B-vítamínin eru reyndar öll góð á frjósemisskeiðinu. Kalk, magnesíum og E-vítamín er víst líka til bóta. Reyndu að lifa reglulegu lífi, fara að sofa á skikkanlegum tíma á kvöldin, borða reglulega, borða hollan mat og stunda líkamsrækt af skynsemi. Reyndu líka að fá sem mest af dagsbirtu því hún bætir frjósemi"

Hvað varðar þína vínsmökkun, þá heyrist mér á öllu að hún sé vel innan skynsemismarka.

Bestu kveðjur og gangi þér allt í haginn,

Unnur Jónsdóttir,
Hjfr. og ritstjori Doktor.is