Ristill og smitleið

Fyrirspurn:

Ég var að koma frá lækni sem greindi mig með ristil, er hann staðsettur á baki undir handarkrika og fram á brjóst. Ég hef áhyggjur vegna þess að á mínu heimili býr dóttir mín sem er að fara fæða barn á næstu dögum, hvað á ég að gera í þessu tilfelli? 

Aldur:53

Kyn:Kvenmaður

Svar:

Sæl,

Ég ætla að senda þér hluta úr svari frá Má Kristjánssyni, smitsjúkdómasérfræðingi sem er að finna á Doktor.is við ekki ósvipaðri spurningu;

“Ristill er sýking sem orsakast af hlaupabóluveirunni. Þessi birtingarmynd kemur vanalega fram á fullorðinsárum þó það sé vel þekkt að börn geti fengið ristil einnig. Ristill er sem sagt orsakaður af hlaupabóluveirunni sem vaknar upp á ný. Bólurnar og vessinn sem myndast er afar smitandi og getur orsakað hlaupabólu í þeim sem ekki hafa fengið hlaupabólu áður”

Af þessu má vera ljóst að þú ert smitberi og því full ástæða að gæta fyllsta hreinlætis og einnig að kanna hvort dóttir þín hafi ekki ábyggilega fengið hlaupabólu á lífsleiðinni (sé með mótefni). Það er hægt að gera með blóðprufu. Hlaupabóluveiran getur verið skaðleg fyrir fóstur. Ef einhver óvissa, þá hvet ég dóttur þína til að ráðfæra sig við sérfræðinga í mæðraeftirliti.

Með bestu kveðju,

Unnur Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur