Spurning:
Sæll.
Undanfarna viku hef ég fundið fyrir sjóntruflunum sem lýsa sér þannig að ég
sé stundum tvöfalt. Þetta er sérstaklega áberandi þegar ég horfi snöggt
niður til þess að lesa eða eitthvað þannig. Þetta var sérstaklega
óþægilegt þegar ég var að spila golf en ég hef alltaf verið með mjög góða
sjón. Þegar ég horfði á golfkúluna þá var hún tvöföld og þegar ég sló
kúlunni var eins og ég náði ekki að fókusa á hana. Ég hef verið að læra
mjög mikið undanfarið og þá sérstaklega mikið á tölvu þannig að ég var að
velta fyrir mér hvort að þetta sé þreyta vegna þess eða eitthvað annað.
Með von um skjótt svar.
Svar:
Sæll.
Ég veit nú ekki hvað þú ert gamall en ekki kæmi mér á óvart þótt þú
væri um fertugsaldurinn. Mér finnst líklegast að þarna sé um svonefndan
„nærstillingarvanda“ að ræða. Augasteinninn hefur þann hæfileika að breyta
um lögun til að sjá hluti nálægt sér. Augasteinninn harðnar svo með aldrinum
og verður erfiðara að breyta um lögun hans þegar við færum hlutina nær
okkur. Þess vegna kemur að því að við þurfum á lesgleraugum að halda til að
sjá hluti nálægt okkur. Augun okkar breytast á þann hátt úr það sem við
köllum „autofókus“ myndavélum í „fixed fókus“ myndavélar! Þetta getur
einnig lýst sér með því að maður eigi erfitt með að fókusera snögglega frá
því sem nálægt er að því sem fjær er – og stundum getur það lýst sér með
tímabundinni tvísýni. Þetta þarftu að láta skoða vandlega hjá augnlækni.
T.d. þarf að athuga hvort annað augað hafi einhverja tilhneigingu til að
vísa út á við eða inn á við, sem gæti einnig orsakað tímabundna tvísýni.
Bestu kveðjur og gangi þér vel!
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf